Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

UMFJÖLLUNAREFNI VIKUNNAR: MEÐVITUÐ OG ÓMEÐVITUÐ HLUTDRÆGNI

Jæja, nú tek ég pásu frá kynbundnu ofbeldi. Samt ekki, enda er kynbundið ofbeldi birtingarmynd kynjamisréttis sem á sér dúpar rætur. Kynjað valdakerfi er samtvinnað samfélaginu öllu og viðheldur sér með því að kenna okkur allt frá fæðingu til hvers sé af okkur ætlað sem annað hvort stelpur eða strákar, konur eða karlar. Valdkerfið gerir ekki ráð fyrir kynsegin fólki og er ekki hrifið af fólki sem ekki uppfyllir kynjaðar staðalmyndir um útlit, fas og framkomu.

ÓMEÐVITUÐ HLUTDRÆGNI EINSTAKLINGA

Fullorðið fólk er afurð kynbundinnar félagsmótunar. Við höfum verið forrituð til að meta hið karllæga ofar hinu kvenlæga sem hefur áhrif á viðmót okkar, verðmætamat og ákvarðanir frá degi til dags. Við höfum tilhneigingu til að hlusta betur á karla en konur og meta framlag karla meira en kvenna. Á sama tíma gerum við meiri kröfur til kvenna en karla um óaðfinnanlegt útlit, flekklausan feril og áreynslulaust jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Þetta hefur áhrif á hegðun okkar, vinnubrögð, ákvarðanir og verkferla og skapar kynskiptan vinnumarkað, kynbundinn launamun og kynbundið ofbeldi svo eitthvað sé nefnt.
 
Þetta er ekki af því við séum vond eða ætlum okkur að mismuna. Þvert á móti teljum við okkur flest vera góðar manneskjur sem myndu aldrei taka þátt í svona ósanngirni. Niðurstöður 
Harvard um ómeðvitaða hlutdrægni sýna þó svart á hvítu að sú sjálfsmynd er ekki rétt.
 
Hjá langflestum okkar er mikill munur á ómeðvitaðri hlutdrægni og meðvitaðri. Aðspurð segjumst við flest meta karla og konur til jafns og að þau séu jafnhæf til verka bæði innan og utan heimilis. Niðurstöður prófsins (sem er eins konar tölvuleikur þar sem þátttakendur hafa stuttan tíma til að bregðast við) sýna að um ¾ hlutar fólks tengir karla samt frekar við vinnumarkað og konur við heimilin.
 
Forritunin hefur lukkast. Ef við höfum ekki tíma og aðstæður til að ígrunda hegðun okkar, afstöðu og ákvarðanir, beinir ómeðvitaða hlutdrægnin okkur í hegðun, afstöðu og ákvarðanir sem styðja og styrkja kynjaða valdakerfið.

ÓMEÐVITUÐ HLUTDRÆGNI FYRIRTÆKJA OG STOFNANA

Þetta er ekkert ólíkt því sem gerist í samfélaginu almennt. Fyrirtæki og stofnanir hafa öll sett sér stefnu með fögrum fyrirheitum um aukið jafnrétti, jöfnum kynjahlutföllum, útrýmingu kynbundins launamunar, áreitni og ofbeldis. Flestar stefnurnar hafa verið til í áratugi en samt eru vandamálin öll til staðar enn.
 
Ástæðan er sú að eftirfylgni stefnanna ferst því miður oft fyrir í dagsins amstri. Fyrir utan stórviðburði á borð við hrun og faraldra þarf að vinna fjárhagsáætlanir, uppgjör, halda góðu sambandi við hagsmunaaðila, selja og þjónusta og gera og græja. Þetta þarf að gerast hratt og snuðrulaust og því gefst ekki tími til að flækja málin með kynjuðum greiningum, umræðum og umbótum sem kosta tíma og orku.
 
Þannig gerist það að þrátt fyrir fögur fyrirheit halda fyrirtæki og stofnanir áfrm að styðja og styrkja kynjað valdakerfi.

GERUM OG GRÆJUM

Ef við viljum stuðla að jafnrétti þurfum við að horfast í augu við skakka sjálfsmynd okkar. Vera meðvituð um ómeðvituðu hlutdrægnina og gefa okkur tíma til að rýna eigin hegðun og ákvarðanir. Það sama á við um fyrirtæki. Þau þurf að verja tíma, orku og fjármagni í að innleiða stefnurnar sínar. Það er vissulega flókið, en þó ekki flóknara en fjárhagsáætlanir, uppgjör og allt hitt sem þau gera ljómandi vel frá degi til dags.
 
Bestu kveðjur,
 
Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 8. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: HITT FÓLKIÐ
Eftir soleytomasdottir 1. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MANNRÉTTINDABROT SEM STEFNUMÁL?
Eftir soleytomasdottir 25. október 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: KVENNAÁRIÐ 2025
ELDRI FÆRSLUR
Share by: