Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


HUGLEIÐING VIKUNNAR: AÐ MÆTA HATURSORÐRÆÐU

Mark Zuckerberg tilkynnti fyrir stuttu að staðreyndavakt Meta yrði lögð niður, enda hefði hún að hans mati gert minna gagn en ógagn. Það þýðir að auðveldara verður að ýta undir upplýsingaóreiðu og koma hatursorðræðu á framfæri á miðlum Meta en áður. Miðlarnir munu lúta svipuðum lögmálum og X, sem fór á stuttum tíma úr því að vera ágætur vettvangur fyrir rökræður um samfélagsleg málefni í að verða hálfgert málgagn öfgahægrisins. Sjálf er ég löngu hætt að nota miðilinn, en finn þegar ég skrifa þetta hvað ég sakna gamla góða Twitter mikið.


Nú hafa einhverjir hópar boðað vikulanga sniðgöngu á samfélagsmiðlum Meta til að mótmæla ákvörðuninni. Það er snúin aðgerð, sér í lagi í ljósi þess sem gerst hefur á X. Þar grefur öfgahægrið óáreitt undan réttindum jaðarsetts fólks á meðan málsvarar mannréttinda eru horfnir á aðra miðla. Í gær benti Rebecca Solnit á þá staðreynd að þó vissulega séu til áhrifaríkar sniðgöngur, þá væri það ekkert sérstaklega gagnlegt að anti-Trumpistar þegðu í viku. Líklegra væri að öfgahægrið myndi njóta þess að ýta undir upplýsingaóreiðu og spúa hatri sínu í friði.

 

ALLTAF MATSATRIÐI


Að þessu sögðu er auðvitað mikilvægt að velja sér slagi. Ég hef fyrir löngu ákveðið að rökræða ekki við örgustu íhaldspungana. Ég set alltaf fyrirvara um viðmælendur þegar ég er beðin um að koma í umræðuþætti í fjölmiðlum og ég svara ekki spjátrungum á samfélagsmiðlum sem eru augljóslega að „pikka fæt“. Virðing og málefnalegar forsendur eru nefnilega nauðsynlegar til að rökræður geti skilað einhverju.


Það þýðir samt ekki að ég gefi öfgahægrinu fríspil. Ég greini valdakerfið, tala um kvenfrelsi og mannréttindi, bendi á það sem þarf að laga, fræði um fjölbreytileika og inngildngu, byggi menningarbrýr og allt hitt. Ég mun aldrei hætta því.


Þó ég skilji þau sem ætla að taka þátt í sniðgöngunni, þá ætla ég sjálf að taka afstöðu með Solnit og vera kraftmeiri og sýnilegri en nokkru sinni á miðlum Meta. Koma með fullt af ábendingum um misrétti og útilokun og benda á leiðir sem hægt er að fara til að bæta heiminn. Ég ætla að vera hávær og kraftmikil, en alveg án þess að veita garginu í rasískum og transfóbískum karlrembum vægi.


MANNRÉTTINDI ERU EKKI HLUTI AF SKAUTUN


Að lokum vil ég ítreka það sem ég hef áður sagt, að þó ég mæli ekki með rökræðum við ómálefnalega öfgahægrimenn, þá er það ekki af því ég óttist skautun. Ég tel áhyggjur af hugmyndafræðilegri skautun algerlega óþarfar, enda hefur orðræðan alls ekki verið að ýkjast til tveggja átta. Það sem hefur verið að gerast er að öfgahægrið er orðið háværara, afturhaldssamara og ósvífnara í að tala gegn mannréttindum, tilverurétti og þátttöku jaðarsetts fólks. Sem betur fer hefur það leitt til þess að talsfólk jaðarsetts fólks hefur talað hærra og meira, en kröfurnar hafa ekkert breyst. Þær snúast eftir sem áður um grundvallarmannréttindi, tilverurétt og viðurkenningu. Það er ekkert öfgakennt við það.


Bestu kveðjur,

Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 7. febrúar 2025
 HUGLEIÐING VIKUNNAR: HVAÐ ER HÆFNI?
Eftir soleytomasdottir 31. janúar 2025
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MIKILVÆGI FJÖLBREYTILEIKANS 
Eftir soleytomasdottir 24. janúar 2025
LOKAHUGLEIÐING VIKUNNAR: ÁRANGUR OG ÁFRAM VEGINN
ELDRI FÆRSLUR
Share by: