Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

HUGLEIÐING VIKUNNAR: KLEFINN Í VESTMANNAEYJUM

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir gömlu. Af mörgum málum sem komið hafa upp á þessu nýhafna ári valdi ég þrettándagleðina í Eyjum sem viðfangsefni vikunnar.



MÁLIÐ

Sagan er eitthvað á þessa leið: Eftir þrettándagleði ÍBV birtust myndir á samfélagsmiðlum af heimatilbúnum tröllum með rasískum tilvísunum. Annað tröllið var með afbökuðu nafni Eddu Falak, hitt var kennt við Heimi Hallgrímsson. Framkvæmdastjóri ÍBV, Haraldur Pálsson, harmaði atburðinn í viðtölum og þóttist ekki hafa vitað um nafngiftina fyrirfram. Hann lét sem þarna væri einskonar einkahúmor hjá hópunum í tröllasmiðjunum, tröllunum hefði um árabil verið gefið nafn sem fram til þessa hefði ekki verið vandamál. Hann sagði málið ekki vera ekki eins djúpt og fólk héldi, það væri ekkert plott í gangi eða áform um leiðindi gagnvart Eddu. Seinna kom í ljós að Haraldur og fjöldi annarra höfðu séð tröllið með nafni Eddu kvöldið áður, án þess að nokkur hefði aðhafst vegna málsins.



NOT ALL...

Í kjöfarið hefur allt samfélagið í Vestmannaeyjum sætt umtalsverðri gagnrýni, sem er örugglega sárt og erfitt fyrir fólk sem vill bara alls ekki láta bendla sig við þetta rugl. Bent hefur verið á að þessi tröllasmiðja sé lítill angi af íþróttafélagi sem sé lítill angi af sveitarfélaginu sem er auðvitað rétt. Ég er viss um að í Vestmannaeyjum er til fullt af góðu fólki.

En það er samt staðreynd að þrettándahátíð ÍBV virðist ekki hafa sætt neinni gagnrýni fyrr en nú. Enginn hefur bent á augljósar rasískar tilvísanir sem hafa verið lengi til staðar í tröllunum, enginn hefur gert athugasemdir við eineltistilburðina í formi nafngiftar tröllanna og enginn gerði athugasemd við skrímslavæðingu Eddu Falak í ár, þrátt fyrir að nafngiftin hafi verið á margra vitorði áður en hátíðin fór fram.


KLEFAMENNING

Ég ítreka að ég trúi því að í Vestmannaeyjum búi fullt af góðu fólki og það er hvorki af mannvonsku né aumingjaskap sem þetta fólk hefur ekki gagnrýnt, mótmælt eða breytt. Það er einfaldlega hægara sagt en gert.

Fyrst og fremst er það erfitt af því að gagnrýnin er svo sársaukafull. Það þarf ansi sterk bein til að segja fólki að það sé að beita einelti, rasisma og kvenfyrirlitningu. Það er erfitt að vera friðarspillirinn sem bendir á að bæjarhátíðin einkennist af ofangreindu. Það er miklu auðveldara að afgreiða þetta sem einkahúmor afmarkaðs hóps, túlka hann sem saklausan og/eða þykjast ekki vita af honum.

Þetta er ekki ósvipað klefamenningu. Þó Vestmannaeyjar séu fullstórar til að skilgreinast sem klefi, þá er þetta lítið og afskekkt samfélag sem reiðir sig á samstöðu til að takast á við veður og náttúruvá. Innan slíkra hópa skapast oft stemning fyrir óviðeigandi húmor og hegðun þar sem fólk spilar með, jafnvel þótt því líði ekki vel með það.

LÆRDÓMURINN

ÍBV hefur sent frá sér afsökunarbeiðni vegna nafnbirtingarinnar og sagst ætla að yfirfara verkferla í kjölfar málsins. Það er ágætt út af fyrir sig, en mun ekki breyta því sem þarf eitt og sér. Það þarf að fara gaumgæfilega ofaní undirliggjandi menningu, fræða um beinar og óbeinar birtingarmyndir rasisma og eineltis, skerpa á gagnrýnni hugsun og umbótavilja, opna klefann og lofta út. Vonandi lánast þeim það.
 
Bestu kveðjur,
Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 8. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: HITT FÓLKIÐ
Eftir soleytomasdottir 1. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MANNRÉTTINDABROT SEM STEFNUMÁL?
Eftir soleytomasdottir 25. október 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: KVENNAÁRIÐ 2025
ELDRI FÆRSLUR
Share by: