Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
ÁSKORUN VIKUNNAR: FORMGERUM HIÐ ÓFORMLEGA
Ég hef áður skrifað hugleiðingu í þessa veru. Þá skrifaði ég um allt það mótlæti sem hinsegin fólk mætir en þykir of óáþreifanlegt fyrir okkur sem ekki mætum því til að hægt sé að skilgreina það og uppræta. Ég ætla að halda aðeins áfram með þetta í dag.
Lengi vel trúði ég því að það sem helst stæði jafnréttismálum fyrir þrifum á Íslandi væri hversu vel hefði gengið að ná formlegu jafnrétti. Að við værum í raun búin að formfesta allt sem hægt væri, restin væri of óáþreifanleg til að hægt væri að skilgreina og setja um það reglur.
Þetta er að hluta til rétt. Við höfum náð formlegu jafnrétti, eins og það er skilgreint í dag. Það er m.a. ólöglegt að mismuna fólki eftir kyni, uppruna og allskonar öðrum breytum og það er ólöglegt að beita ofbeldi, nauðga og áreita.
Þetta lagalega jafnrétti er þó aldeilis ekki fullkomið, það heyrir til undantekninga að dæmt sé í nauðgunarmálum, kynbundinn launamunur er viðvarandi vandamál og konur, kvár og annað jaðarsett fólk sætir fjölþættu misrétti í samfélaginu án þess að lögregla eða réttarkerfi bregðist við.
SKILGREININGARVALDIÐ
Það misrétti sem við höfum bannað með ákvæðum í stjórnarskrá og lögum, reglum, stefnum og aðgerðaáætlunum, það er misrétti sem einu sinni þótti sjálfsagt. Einu sinni þótti eðlilegt að hafa kvennataxta og karlataxta á vinnumarkaði. Einu sinni þótti í lagi að karlar næðu fram vilja sínum gagnvart konum. Einu sinni þótti eðlilegt að geyma fatlað fólk á stofnunum, bjóða upp á meðferðir fyrir samkynhneigt fólk, gera „kynleiðréttingaraðgerðir“ á intersex börnum, meina konum aðgengi að háskólanámi og svona mætti lengi telja.
Það krafðist mikillar baráttu að benda á þetta misrétti og sannfæra samfélagið um að það væri ósanngjarnt. Það krafðist endurskoðunar á skilgreiningum og það krafðist þess að valdið til skilgreininga væri ekki bara hjá forréttindafólki.
AÐ FORMGERA HIÐ ÓFORMLEGA
Konur og jaðarsett fólk mætir allskonar hindrunum í daglegu lífi, en skilgreiningarvaldið á áþreifanleika hefur fram til þessa legið hjá forréttindafólki. Hvers kyns öráreiti eru mjög áþreifanleg fyrir þau sem fyrir þeim verða. Ástæðan fyrir því að þau eru skilgreind sem óáþreifanleg er að fólkið sem verður ekki fyrir þeim (og er í flestum tilfellum fólkið sem beitir þeim) á bágt með að skilja eðli þeirra, umfang og áhrif.
Þessu þurfum við að breyta. Við þurfum að halda áfram að skilgreina óæskilega hegðun, útskýra áhrif hennar og koma í veg fyrir að hún eigi sér stað. Hér eru nokkur dæmi um skilgreiningar sem hafa verið í mótun og geta nýst:
BREYTUM
Við þurfum öll að leggja okkar af mörkum með því að læra um og miðla þekkingu um þau hugtök sem litið hafa dagsins ljós og eru fyrsta skrefið í að skilgreina og uppræta óæskilega hegðun. Við þurfum að trúa því og virða þegar okkur jaðarsettara fólk segir frá því sem þau verða fyrir og við þurfum að læra hvenær og hvernig við getum forðast þessa óæskilegu hegðun.
Bestu kveðjur,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl