Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
HUGLEIÐING VIKUNNAR: FÖGUR OG FRAMKVÆMANLEG FYRIRHEIT
Gleðilegt ár. Ég vona að þið séuð södd og sæl og úthvíld eftir hátíðirnar, tilbúin til að takast á við áskoranir og mögulega með fyrirheit um að gera enn betur á einhverjum sviðum.
Margir vinnustaðir hafa einsett sér að taka fastar á jafnréttis-, fjölbreytileika- og inngildingarmálum (JFI) á nýju ári, ýmist með stefnumótun, fræðslu, umræðum eða blöndu af þessu sem hefur ekki endilega verið útfærð. Í þessari hugleiðingu ætla ég að varpa fram hugmyndum sem vert er að skoða við slíkar aðstæður.
VINNUSTAÐARMENNINGIN
Eins og ég hef ítrekað bent á, skiptir máli að stefnumótun og áætlanagerð er varðar JFI snúist ekki bara um skilgreint og formlegt jafnrétti, s.s. í ráðningum, kjörum, eða tækifærum innan vinnustaðarins. Það er nauðsynlegt að takast á við hið óformlega líka, alls kyns útilokandi þætti, hegðun og framkomu sem ekki hefur enn verið formlega skilgreint en getur haft umtalsverð áhrif á líðan, tækifæri og frammistöðu starfsfólks á öllum vinnustöðum.
Mikilvægt er að hefja stefnumótun með því að kalla eftir athugasemdum og ábendingum um allt sem betur mætti fara á vinnustaðnum. Þetta má gera í gegnum blöndu af viðtölum, opnum umræðum, nafnlausum ábendingargáttum og formlegum innsendingum undir nafni. Á þessu stigi kemur oftast í ljós hvaða starfsfólk er áhugasamast um JFI á vinnustaðnum og hægt að bjóða því að taka þátt í vinnunni framundan. -Munið þó að sú vinna þarf að vera viðurkennd, skilgreind og launuð.
Stefnumótun í framhaldinu þarf svo að byggjast innkomnum ábendingum, en jafnframt þekkingu á helstu áskorunum og aðferðum í stefnumótun er varðar JFI.
MÁLAFLOKKURINN
Til er mikið af rannsóknum á stöðu JFI innan vinnustaða og fjöldi módela sem hægt er að byggja á. Öll þessi módel ganga út frá því að staða málaflokksins á vinnustaðnum sé greind í upphafi. Þessar greiningar ganga ekki út á líðan eða viðhorf starfsfólks, heldur að greina hversu mikil áhersla er lögð á málaflokkinn og mæla skuldbindinguna sem er til staðar áður en haldið er af stað.
Eitt gagnlegt módel greinir þróun inngildingarvinnu á vinnustöðum, en ferlið hefst yfirleitt í afneitun og fer svo í gegnum vörn, skautun, samþykki, aðlögun og endar í inngildingu. Annað gagnlegt módel greinir skuldbindingu vinnustaðarins frá því að vera virkt stuðningsfólk, í breytingaöfl og loks fyrirmyndir. Enn annað er gagnlegt til að greina fyrirhöfnina á vinnustaðnum, úr ómeðvituðu vanhæfi í gegnum meðvitað vanhæfi, þaðan í meðvitað hæfi og loks ómeðvitað hæfi.
Þegar ég veiti ráðgjöf í þessum efnum hef ég spurningalista við höndina sem byggir á þessum módelum – en er til þess gerður að sjá hvar vinnustaðurinn er staddur, finna hvar áskoranirnar liggja og finna leiðir til að mæta þeim.
BLAND Í POKA
Málaflokkur JFI krefst þekkingar, skuldbindingar og samstöðu á vinnustaðnum. Fyrir ykkur sem eruð að fara af stað í stefnumótun í málaflokknum mæli ég mjög með blandi af öllu því sem kom fram hér að ofan. Að tryggt sé að stefnumótunin byggi á þekkingu á femíniskri stefnumótun, að allt starfsfólk geti komið ábendingum á framfæri, að áhugasamt starfsfólk geti tekið þátt í stefnumótuninni, að staða málaflokksins sé ítarlega greind og að gerð sé tímasett og fjármögnuð áætlun um úrbætur á því sem betur má fara.
Þetta eru ekki geimvísindi – en vísindi engu að síður. Jafnrétti, fjölbreytileiki og inngilding er forsenda sanngjarns og heilbrigðs vinnumarkaðar, árangurs á vinnustöðum og velsældar í samfélaginu öllu. Þess vegna þurfum við að vanda okkur og standa. Ekki hika við að hafa samband ef þið þurfið á aðstoð að halda.
Bestu kveðjur,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl