Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
JÓLAKVEÐJA VIKUNNAR
Í fræðslu nota ég svokallaðan haturspíramída til að beina sjónum þátttakenda að rótum vandans. Að okkar eigin ómeðvitaða hlutdrægni leiði til alls kyns óæskilegrar hegðunar sem valdi óþægindum, vanlíðan og mismunun án þess að hún hafi verið formlega skilgreind. Þetta skapi svo farveg fyrir alvarlegri birtingarmyndir, formlega mismunun, ofbeldi og í verstu tilfellum þjóðarmorð.
Ég passa alltaf upp á að vara fólk við glærunni af því ég veit að mörgum finnst hún dramatísk. Hún er vissulega óþægileg. Fyrst og fremst af því þar stendur orðið þjóðarmorð skrifað með frekar stórum stöfum. Lengi vel friðaði ég fólk með því að segja að sem betur fer þyrftum við ekki að hafa áhyggjur af þjóðarmorðum. Það get ég ekki lengur gert.
ÞJÓÐARMORÐ
Á meðan við keppumst við að koma öllum jólaboðunum fyrir í aðventudagskránni, græjum jólagjafir, tré, greni, skraut og konfekt, býsnumst yfir þriðju vaktinni sem er óþolandi fyrirferðarmikil á aðventunni, pirrum okkur á kynjuðum textum í jólalögum og staðalmyndum í leikfangaverslunum er Ísraelsher nefnilega á lokametrum útrýmingar palestínsku þjóðarinnar.
Á aðventunni hefur Ísraelsher drepið þúsundir barna, sprengt upp spítala, myrt fjölmiðlafólk og haldið nauðþurftum og hjálpargögnum frá Gaza. Ísraelsher er lítið að spá í eldhússkápum og smákökusortum fyrir jólin, þar dugar ekkert minna en þjóðernishreinsun. Og hver veit nema hann nái að klára allt fyrir jól?
IF YOU THINK YOU ARE TOO SMALL TO MAKE A DIFFERENCE, TRY SLEEPING WITH A MOSQUITO
Hvert og eitt okkar er agnarsmátt innanum milljarðana sem byggja þessa jörð og Ísland er smáþjóð á heimsmælikvarða. Það er auðvelt að nota það sem afsökun í jólastressinu og láta ekki „ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs“ eyðileggja jólastemninguna. En það er ekki í boði.
Allar hæðir haturspíramídans skipta máli. Við þurfum að vera meðvituð um okkar eigin ómeðvituðu hlutdrægni, draga úr óæskilegri hegðun og forðast að mismuna eða beita ofbeldi. Síðast en ekki síst verðum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til að stöðva þjóðarmorð. Við verðum að beita okkur sem einstaklingar, í gegnum öll þau samtök sem við kunnum að eiga aðild að og sem þjóð.
Reynum að stuðla að því að sem flest fólk eigi gleðileg jól og reynum að draga úr hörmungum þeirra sem ekki eiga þess kost. Verum gagnrýnin, sendum skýr skilaboð, sniðgöngum ísraelskar vörur, menningu og listir og bjóðum fram alla þá aðstoð sem við eigum tiltæka. Ef hvert og eitt okkar gerir pínulítið gagn, þá verður gagnið mikið.
Bestu kveðjur,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl