Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MISKINN VEGNA LAUNAMUNAR KYNJANNA
Fyrir stuttu felldi Héraðsdómur Reykjavíkur dóm yfir Innheimtustofnun sveitarfélaga vegna svívirðislegs kynbundnins launamunar sem hafði verið látinn óskiptur um árabil. Dómurinn er merkilegur vegna upphæðanna sem þar koma fram, en ekki síður vegna þess að í fyrsta skipti (svo ég viti) voru dæmdar miskabætur í máli sem þessu.
Í dómnum kemur fram að konan hafi orðið fyrir áfalli þegar hún komst að hinu sanna um launamuninn, að framferði atvinnurekandans hafi verið sérlega íþyngjandi fyrir konuna, bakað henni andlegt tjón og rýrt starfsheiður hennar. Þáverandi stjórnendur hafi vegið að persónu konunnar með hætti sem almennt sé til þess fallinn að valda miska.
VANLÍÐANIN
Launamunur kynjanna er vanmetið valdatæki. Við höfum búið við hann svo lengi og erum búin að kerfisgera hann svo rækilega að við erum hætt að sjá skóginn fyrir trjánum. Við höfum kæft umræðu um hina raunverulegu kúgun í jargoni um prósentur og skýribreytur. Við tölum allt of sjaldan um upphæðirnar sem konur verða af á vinnumarkaði og við tölum allt of sjaldan um áhrifin sem þetta hefur.
Tilvist kynbundins launamunar ein og sér hefur neikvæð áhrif á samfélagið. Launamunurinn hefur neikvæð áhrif á sjálfstraust og sjálfsmynd kvenna, enda sendir hann skýr skilaboð um að framlag þeirra sé minna virði en karla. Viðkvæðið hefur verið að hvetja konur til dáða, að þær þurfi bara að vera duglegri, semja betur, gera meiri kröfur og vera meira eins og karlar. Það hefur sumsé verið sett á ábyrgð kvenna að sanna að framlag þeirra sér þarft, mikilvægt og verðmætt.
Raunveruleikinn er sá að þær fáu konur sem hafa kjark til að leita réttar síns vegna kynbundins launamunar hafa flestar bugast undan hrútskýringum og gaslýsingum atvinnurekenda á málefnaleika launamunarins. Fengið það staðfest að þær séu raunverulega lítils virði og gefist upp.
SAMHENGIÐ
Launamunur kynjanna ýkir allar birtingarmyndir kynjamisréttis. Hann dregur úr fjárhagslegu sjálfstæði kvenna, ýkir skekkjuna í verkaskiptingu inni á heimilum og undirbyggir og viðheldur samfélagslegum viðmiðum þar sem hið karllæga er meira metið en hið kvenlæga. Það hefur áhrif á sjálfstraust, tækifæri og þátttöku alls fólks í hinum fjölbreyttu verkefnum lífsins og skapar forréttindi og hindranir sem nauðsynlegt er að afmá.
HARÐARI AÐGERÐIR
Við verðum að tala af meiri alvöru um launamun kynjanna. Hætta að tala um prósentur og skýrinbreytur og tala um allar milljónirnar sem atvinnurekendur hafa af konum í hverjum einasta mánuði. Atvinnurekendur sem láta launamun líðast eru í raun að stela peningum með því að láta konur vinna launalaust hluta úr degi. Það er ekki minna alvarlegur glæpur en að standa ekki skil á launatengdum gjöldum, en fyrir slíkt er fólki miskunnarlaust stungið í steininn.
Við verðum að hætta að biðja atvinnurekendur mildilega um að fylgja vottunarkerfum. Það þarf að setja miklu harðari viðurlög og fylgja þeim eftir með skýrum og ákveðnum hætti. Ef þið viljið vita meira, þá ræddum við Steini þetta sama mál í nýjasta þætti Fjórðu vaktarinnar, en hann má nálgast hér.
Bestu kveðjur þangað til þá,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl