Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
HUGLEIÐING VIKUNNAR: ÓÞEKKAR KONUR
Ég var að klára að hlusta á bækurnar Gullbúrið og Silfurvængi eftir Camillu Läckberg. Án þess að segja of mikið fjalla þær um konu sem hefnir sín rækilega á gerendum sínum. Bækurnar eru svo sem ekkert frábærar, en þær vöktu mig til umhugsunar gamalt þema sem nýtur sívaxandi vinsælda, þemað um konur sem hefna sín á körlum. Til viðbótar við Faye í framangreindum bókum má nefna Lisbeth Salander úr bókunum um karla sem hata konur, Kötu eftir Steinar Braga og margar fleiri. Glæpakvendi sem við höldum með þó við séum sjálf að jafnaði siðaðar og löghlýðnar persónur. Við höfum samúð með þeim vegna ömurlegrar lífsreynslu og dáumst að voðaverkunum sem þær fremja í nafni einhvers konar réttlætis.
RAUNVERULEIKINN
Auðvitað er langur vegur milli skáldskapar og raunveruleika og allar listir fá okkur oft til að hugsa um og dæma hluti öðruvísi en við myndum annars gera – hlæja að óviðeigandi hlutum eða jafnvel halda með skúrkum. Góðar skáldsögur höfða þó til einhverra hvata, tengja okkur við eitthvað umhugusnarefni og ögra dómgreind okkar með einhverjum hætti.
Þemað um uppreisnargjörnu konurnar sem hefna sín á gerendum sínum er varla tilviljun. Þessar bækur verða til í samfélagi þar sem brotaþolum eru engir vegir færir til að fá viðurkenningu á reynslu sinni eða gerendur sína dæmda. Þær eru hressandi uppbrot á staðalmyndunum sem hafa áhrif á okkur öll – sem segja stelpum að vera prúðum, passa sig, þóknast og þjónka og strákum að vera ákveðnir, kjarkaðir og kröfuharðir.
Þessar bækur veita okkur þannig útrás fyrir uppreisnargirni gagnvart samfélagslegum viðmiðum og réttlætiskennd gagnvart ósanngjarnri meðferð kynferðisbrota. Auk þess vona a.m.k. sum okkar (og væntanlega höfundarnir líka) að þær stuðli að vitundarvakningu, úrbótum og bættu samfélagi.
LÍKA RAUNVERULEIKINN
Þegar við erum ekki að lesa skáldsögur erum við bara í daglegu amstri, reynum að vera almennilegar og upplýstar manneskjur, fylgjumst með frétta- og samfélagsmiðlum og tökum þátt í skoðanaskiptum um málefni líðandi stundar. Þá tölum við um alvöru fólk sem skrifað hafa verið fréttir um – hetjur, skúrka og allt þar á milli.
Því miður fer þá minna fyrir vitundarvakningunni en höfundar og aðdáendur glæpakvendabókanna vonuðust eftir. Við dæmum hegðun og framgöngu fólks í talsvert miklu samræmi við staðalmyndirnar, finnst ómögulegt þegar konur eru of ákveðnar, kjarkaðar eða kröfuharðar þó við fyrirgefum og jafnvel dáumst að körlum fyrir sömu eiginleika. Skýrast er þetta í umræðum um #metoo, þar sem við krefjumst þess af brotaþolum að fylgja skýrum leikreglum réttarkerfisins jafnvel þótt við vitum að þessar leikreglur þjóni engum nema gerendum.
TVÖFALT SIÐGÆÐI
Ef við viljum brjóta upp úrelt gildi samfélagsins, þá verðum við að samþykkja, standa með og styðja fólk sem ögrar þeim. Ég er ekki að hvetja til þess að brotaþolar grípi til glæpsamlegs athæfis - en við getum ekki ætlast til þess að brotaþolar samþykki sakleysi uns sekt sannast þegar sektin er eiginlega aldrei sönnuð. Við getum ekki múlbundið brotaþola. Við verðum að hlusta á og trúa brotaþolum og finna leiðir til að díla við vandann, breyta réttarkerfinu og tryggja að réttlæti nái ekki bara fram að ganga í skáldsögum (og það með vafasömum hætti).
Bestu kveðjur þangað til þá,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl