Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
HUGTAK VIKUNNAR: HUGRÆNT MISRÆMI
Það ætlar sér enginn að knésetja konur, en það þarf ásetning til að gera það ekki. Ekki af því konur séu alltaf að útsetja sig fyrir slíku, heldur af því að samfélagið útsetur þær. Kynjaðar staðalmyndir hafa enn allt of mikil áhrif á það hvað og hvernig við metum fólk. Hugmyndin um samviskusömu, prúðu og óflekkuðu konuna er alltumlykjandi þegar við dæmum konur á meðan við fyrirgefum körlum allskonar alvarlega hluti af því „boys will be boys“.
SAGAN
Það eru ekki nema örfáir áratugir síðan það þótti í lagi að siða fólk til í nafni kvenleika og karlmennsku. Ég man þegar það tíðkaðist að segja stelpum/konum að vera kvenlegar í útliti og hegðun og segja strákum/körlum að haga sér ekki eins og kerling.
Í dag vitum við betur, við vitum að kynin eru fleiri og flóknari og við vitum að staðalmyndirnar hafa neikvæð og heftandi áhrif á fólk. Flest viljum við vera góð og frjálslynd og hvetja stelpurnar okkar til að vera sterkar og strákana okkar til að sýna tilfinningar. Við teljum okkur fær um að koma fram af virðingu og jafnræði við fólk af öllum kynjum og við teljum okkur geta metið kosti og galla fólks með hlutlægum hætti.
HUGRÆNT MISRÆMI ( E. COGNITIVE DISSONANCE)
Sjálfsmynd okkar stenst því miður ekki skoðun. Við erum hlutdrægari en við teljum okkur vera. Þrátt fyrir fögur fyrirheit erum við líkleg til að meta kosti karls meiri en konu og við erum líklegt til að meta mistök konu alvarlegri en karls. -Og af því við erum svo meðvituð um staðalmyndirnar, þá segjum við stundum að við myndum líka dæma karl með þessum hætti – eða við myndum velja konu ef hún væri með kosti karlsins. Þetta hugræna misræmi, þegar hegðun okkar er á skjön við sjálfsmynd okkar, er vel þekkt fyrirbæri innan sálfræðinnar.
ÁSETNINGUR
Við erum öll breysk og við gerum öll mistök. Líka fólkið sem við elskum og þykir vænt um. Þó sum mistök séu vissulega ófyrirgefanleg, þá er hægt að vinna úr mörgum. Það hafa mistök karlanna kennt okkur í gegnum tíðina, karlanna sem við höfum verið tilbúin til að fyrirgefa, treysta, endurráða og endurkjósa aftur og aftur þrátt fyrir allskonar vitleysu. Það þarf engan ásetning til þess, við erum vön því. En það þarf raunverulegan ásetning til að standa með konum við slíkar aðstæður. Reynum að rækta hann.
Bestu kveðjur þangað til þá,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl