Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

LIÐ VIKUNNAR: TEAM PØLSA

Ég hélt fyrirlestur í gær á hvatningardegi Vertonet. Ég hafði tekið að mér að fjalla um hæfni með gagnrýnum hætti sem undir venjulegum kringumstæðum hefði endað með enn einum fyrirlestrinum um áhrif ómeðvitaðrar hlutdrægni á hausinn á okkur.


En um síðustu helgi hámhorfði ég á norsku sjónvarpsþættina Team Pølsa. Í kjölfarið henti ég fyrirlestrinum og talaði í staðinn um skíðaiðkun í Noregi og fatlaða unglinga. Hér er kemur hraðsoðin útgáfa af því sem ég sagði.

 

SKÍÐAIÐKUN Í NOREGI

 

Skíðaiðkun er stór hluti af norskri þjóðarsál. Það eiga öll að geta skíðað. Það er hollt, það er gaman og það er félagslegt, auk þess sem þjóðin sameinast reglulega í að styðja og dást að skíðastjörnunum sínum á alþjóðavettvangi.


Á undanförnum árum hefur þjóðarsportið þó liðið fyrir elítisma og samkeppni. Aukin áhersla á dýran búnað og afreksfólk hefur gert það að verkum að skíðaiðkun hefur minnkað, sem er áhyggjuefni fyrir lýðheilsu og sjálfsmynd Norðmanna.

 

TEAM PØLSA

 

Øystein “Pølsa” Pettersen er fyrrum ólympíumeistari á skíðum sem á seinni árum hefur lagt áherslu á hamingju hversdagsins umfram medalíur. Hann vill meina að hver sem er geti gert hvað sem er, en þó ekki út frá gamaldags hugmyndafræði um að hver sé sinnar gæfu smiður eða að konur þurfi bara að vera duglegri.


Til að sýna fram á þetta setti Øystein saman Team Pølsa. Lið sem samanstendur af sex fötluðum unglingum sem tóku þátt í heimsmeistaramótinu á gönguskíðum í febrúar á þessu ári. Norska ríkissjónvarpið fylgdi liðinu eftir í eitt ár, frá því þau hittust fyrst og þangað til þau komu í mark og þættirnir hafa notið fádæma vinsælda þar í landi.

 

HVAÐ ER HÆFNI?

 

Alþjóða skíðasambandið hefur útbúið 50 blaðsíðna handbók með reglum um þátttöku í heimsmeistaramótinu. Enginn meðlimur Pølsaliðsins uppfyllir eina einustu kröfu sem þar er gerð. Liðið samanstendur af Piu sem er með CP og notar göngugrind og hjólastól, Trygve sem er dvergvaxinn og ekki mjög gefinn fyrir áskoranir, Syver sem er blindur vegna barnademensíu, Mikkel sem er með Williams-heilkenni, Sunnevu sem fæddist með hálft hjarta og Peder sem á einhverfurófi og notar bangsa sem stuðningstæki.


Í þáttunum fylgjumst við með liðinu átta sig á eiginleikum hvers og eins, horfast í augu við áskoranir og finna lausnir á þeim sem lið. Saman fara þau upp á 2100 metra hátt fjall, fara í ísbað, á hestbak og í klettasig. Hver og ein þessara áskorana hljómar alveg ómöguleg í upphafi, en einhvern veginn tókst þeim að gera þetta allt – og klára á endanum gönguskíðabraut fyrir framan tugþúsundir áhorfenda á sjálfu heimsmeistaramótinu á skíðum.

 

ÚRELT VIÐMIÐ

 

Handbók Alþjóða skíðasambandsins er ekki eini mælikvarðinn sem hægt er að nota. Þar koma fram reglur um hvaða fólk þau vilja að taki þátt, en ekki hver geta tekið þátt. Team Pølsa hefur sýnt fram á að við getum öll gert allt sem við viljum, ef við fáum að vera við sjálf, ef þarfir okkar eru viðurkenndar og þeim mætt. 


Það er engin ein rétt skilgreining á afreksíþróttafólki eða rétt samsettu liði. Ekki frekar en á hæfasta einstaklingnum í hvaða starf, nám eða hlutverk sem er. Kröfurnar sem við setjum byggja alltaf á því hvaða fólk við viljum fá, frekar en hvaða fólk við getum fengið.


Ég mæli eindregið með hámhorfi á Team Pølsa og legg til að þættirnir verði þýddir fyrir íslenska áhorfendur hið snarasta.


Bestu kveðjur,

Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 28. mars 2025
SPURNING VIKUNNAR: ERU KONUR AÐ TAKA YFIR?
Eftir soleytomasdottir 14. mars 2025
HUGLEIÐING VIKUNNAR: HVAR ENDAR ÞETTA?
Eftir soleytomasdottir 7. mars 2025
 HUGLEIÐING VIKUNNAR: MENNINGARBRÚ
ELDRI FÆRSLUR
Share by: