Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

SPURNING VIKUNNAR: ERU KONUR AÐ TAKA YFIR?

Ég er að jafna mig eftir kosningavöku hjá Silju Báru Ómarsdóttur, sem verður næsti rektor Háskóla Íslands. Hún er metnaðarfull, réttsýn og gallharður femínisti. Kona sem er óhrædd við að prófa nýja hluti og ögra ríkjandi viðmiðum. Það er dásamlegt að háskólasamfélagið velji sér slíka manneskju til að leiða starfsemina.


Umræðan um það hvort konur séu að sækjast eftir jafnrétti eða ætli sér mögulega að taka allt yfir hefur tekið á sig ýmsar myndir í gegnum tíðina. Nú þegar borgarstjóri, biskup Íslands, ríkislögreglustjóri, sex af 11 ráðherrum, forseti og rektorar allra háskóla á Íslandi eru konur er tilefni til að taka smá snúning á því.


SKIPTIR KYN MÁLI?


Einu sinni spurði ég góða vinkonu mína af hverju kynhneigð skipti máli. Af hverju samkynhneigt fólk þyrfti að koma út úr skápnum þegar gagnkynhneigt fólk þyrfti þess ekki. Hún svaraði því til að kynhneigð skipti máli á meðan hún skipti máli. Að sú staðreynd að samkynhneigt fólk þurfi að greina frá kynhneigð sinni en ekki gagnkynhneigt, svari í raun spurningunni. Samkynhneigð er enn álitin frávik og vegna hennar mætir fólk hindrunum. Á meðan svo er, þá skiptir kynhneigð máli. 


Það sama gildir um kyn. Við spáum lítið í dæmigerða hvíta íslenska karla í valdastöðum á Íslandi, en finnst ýmislegt um konur í valdastöðum. Konur í valdastöðum mæta oftar gagnrýni en karlar og gagnrýnin er harðari og persónulegri gagnvart konum en körlum.


Eins og ég hef áður sagt, þá þurfa konur sem brjóta glerþök að labba á glerbrotunum lengi á eftir. Þær mega ekki vera of frábrugðnar karlkyns forverum sínum en eiga samt að laga allt sem karlkyns forverarnir höfðu ekki lagað eða skemmt. Þær eiga að rugga bátnum, en ekki of mikið. Agnes Sigurðardóttir var fyrst kvenna til að verða biskup Íslands og ruggaði þeim bát óskaplega lítið. Hún gegndi stöðunni þó nægilega lengi til að sópa burtu glerbrotunum og skapa pláss fyrir óhefðbundnari konu, Guðrúnu Karls Helgudóttur, sem sannarlega hefur nýtt það til að rugga bátnum duglega. Nú er spurning hvort það sama hafi gerst í Háskóla Íslands. Kristín Ingólfsdóttir varð rektor fyrst kvenna og átti kannski sinn þátt í að skapa pláss fyrir Silju Báru, sem ég spái að muni hafa femínískari áhrif á Háskólann en Kristín náði að gera.


Svarið er því já. Kyn skiptir máli.


ERU KONUR AÐ TAKA YFIR?


Ég held ekki að það væri það versta sem gæti gerst að konur tækju yfir. Ríkjandi valdakerfi er rótgróið og einkar lagið við að viðhalda sér. Fordómar, áreiti, ofbeldi og mismunun á sér stað á öllum sviðum samfélagsins og skapar margvíslegar hindranir fyrir konur, kvár og jaðarsett fólk. Því verður ekki breytt á einni nóttu og því verður ekki breytt af fólki sem ekki hefur reynslu af og skilning á þessum hindrunum.


Eiginlega væri bara frábært ef konur tækju yfir. Það er svo miklu auðveldara að uppræta hindranir valdakerfisins ef konur, kvár og jaðarsett fólk hefur vald til að breyta heldur en að þau þurfi að berjast fyrir virðingu og sjálfsögðum réttindum í gegnum grasrótarsamtök af kantinum.


Ef raunverulegu jafnrétti verður einhvern tímann náð getum við svo rætt um sanngjarna skiptingu valdapósta. Þangað til það gerist hef ég nákvæmlega engar áhyggjur.


Bestu kveðjur,

Sóley



Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 14. mars 2025
HUGLEIÐING VIKUNNAR: HVAR ENDAR ÞETTA?
Eftir soleytomasdottir 7. mars 2025
 HUGLEIÐING VIKUNNAR: MENNINGARBRÚ
Eftir soleytomasdottir 21. febrúar 2025
HUGMYNDAFRÆÐI VIKUNNAR: SKÓLI ÁN AÐGREININGAR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: