Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
HUGLEIÐING VIKUNNAR: AF HVERJU INNGILDING?
Árið 1974 fæddist ég inni í einsleitt samfélag með skráðum og óskráðum reglum sem útilokuðu stóra hópa fólks frá þjónustu og þátttöku. Þá var meginreglan var sú að karlar voru á vinnumarkaði og konur heima. Útlendingar voru í útlöndum, fatlað fólk inni á stofnunum og hinsegin fólk inni í skápum. Hinu opinbera, atvinnu- og fjármálalífi var stýrt af hvítum, íslenskum, ófötluðum og gagnkynhneigðum cis körlum. Gert var ráð fyrir körlum sem fyrirvinnum og ólaunuðum störfum kvenna, en kraftar, hugmyndir og hæfileikar kvenna og jaðarsetts fólks voru hundsaðir að flestu öðru leyti. Að ekki sé talað um þarfir þeirra, væntingar eða langanir.
51 ÁRI SÍÐAR
Í dag samanstendur vinnumarkaðurinn af fólki af öllum kynjum með allskonar húðlit, líkamsgerð, kynhneigðir, tungumálakunnáttu, menningarlegan bakgrunn, sýnilegar og ósýnilegar fatlanir. Konur eru í fjölmörgum valdastöðum, hinsegin og kynsegin skápar hafa verið opnaðir, fatlað fólk er sýnilegra og virkara í samfélaginu og tæplega 20% þjóðarinnar eiga rætur að rekja til annarra landa.
Ekkert af þessu gerðist af sjálfu sér. Jaðarsett fólk hefur brotist út úr skápum, stofnunum og heimilum með mikilli fyrirhöfn og er enn að berjast fyrir að eigin tilvist, þátttaka, þarfir og framlag sé tekið alvarlega í samfélaginu. Innbyggðar hindranir í valdakerfinu gera það að verkum að enginn ofangreindra hópa hefur enn öðlast algert öryggi eða jafnrétti.
ÚTILOKANDI ÍSLAND 2025
Samfélag þar sem trans fólk þarf að búa við hatursorðræðu á borð við þá sem Arna Magnea Danks sýndi í vikunni, samfélag sem kýs sér aftur og aftur karla sem tala um konur sem ku**ur á þing og samfélag sem reiðir sig á ríka karla til að rampa upp opinberar byggingar er útilokandi samfélag.
Samfélag þar sem útlendingar á lágmarkslaunum þrífa vel flesta vinnustaði undir ómanneskjulegu álagi án þess að vera eiginlegur hluti af vinnustaðnum og samfélag sem þarf að fara í enn eina landssöfnunina fyrir nýju Kvennaathvarfi af því það tekst ekki að uppræta kynbundið ofbeldi er sömuleiðis útilokandi.
AÐ AFNEMA HINDRANIR
Aukin þátttaka jaðarsetts fólks í samfélaginu hefur afhjúpað hindranir þess. Eðli málsins samkvæmt. Hindranirnar eru oftar en ekki ósýnilegar fyrir þau sem ekki verða fyrir þeim og áhrif þessara hindrana eru illskiljanleg fyrir þau sem ekki búa við slíkt. Þess vegna þurfum við öll, sama hvaða hópi við tilheyrum að hlusta þegar jaðarsetts fólks segir frá. Við þurufm að reyna að skilja kröfur jaðarsetts fólks og virða þær þó við skiljum þær ekki.
Inngildandi samfélag snýst ekki um að vera góður við minni máttar. Það snýst ekki um að hjálpa einhverjum sem getur ekki hjálpað sér sjálfur. Það snýst um að afnema hindranir gömlu daganna sem enn eru til staðar í byggingum, hugarfari, ferlum, viðskiptamódelum og verðmætamati samfélagsins árið 2025. Það eru hindranirnar sem eru vandamálið, ekki fólkið sem þær hafa áhrif á.
TÖKUM HÖNDUM SAMAN
Það gagnast engu okkar að rífast um erlend hugtök eða hnýta í einstaka fræðigreinar. Gott og heilbrigt samfélag, þar sem allt fólk getur búið við öryggi og jafnrétti, krefst þess að tökum höndum saman. Það krefst áframhaldandi vinnu við rannsóknir, greiningar og miðlun þekkingar á þeim hindrunum sem til staðar eru, ekki síst í gegnum kynja-, hinsegin-, fötlunar- og fjölbreytileikafræði.
Við þurfum öll að tileinka okkur þessa þekkingu, koma fram hvert við annað af virðingu og væntumþykju og hjálpast að við að afnema hindranir og bæta samfélagið. Okkar eigin hegðun, framkoma, ákvarðanir og áhrif hafa sitt að segja um öryggi, líðan og tækifæri fólksins í kringum okkur.
Bestu kveðjur,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl