Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


SPURNING VIKUNNAR: AF HVERJU SVARA ÞÆR EKKI?

Í gær tókum við Hildur Lilliendahl til varna fyrir Eddu Falak í grein á Vísi. Edda hefur setið undir stöðugum, rætnum og ómálefnalegum árásum af hálfu feðraveldisins undanfarin misseri. Hún hefur verið uppnefnd og skrímslavædd, verið hótað og sótt til saka fyrir að veita þolendum möguleika á að segja sögur sínar.

Edda er'ann. Hún er femínistinn sem fjölmiðlar nota sem smellubrellu af því þeir vita að virk í athugasemdum nota hana til að fá útrás fyrir gremju sína og óöryggi. Það er nefnilega svo miklu einfaldara að ráðast að Eddu en að horfast í augu við óréttlætið sem hún er að afhjúpa í sínum daglegu störfum. Hún er andlit hugmyndafræði sem samfélagið skilur illa. Og það er ógeðslega erfitt.


ÆRUMEIÐINGAR

Við Hildur höfum báðar verið í þessari stöðu. Það er ömurlegt. Það er vont að vera kölluð ljótum nöfnum, óhuggulegt að fá hótanir um ofbeldi og óþægilegt að vera þekkt andlit í samfélagi þar sem hatrið er að stærstum hluta nafnlaust í athugasemdakerfum.

Það er erfitt og kannski ómögulegt að útskýra, en uppnefnin og hótanirnar eru alls ekki það versta við að vera í þessari stöðu. Það er svo miklu verra þegar feðraveldið nýtir skilgreiningarvald sitt til að snúa út úr orðum okkar og gjörðum til að draga úr trúverðugleika okkar. Þegar dregin er upp mynd af okkur sem óheiðarlegum, illgjörnum eða ofstækisfullum til að viðhalda og ýkja andúðina gagnvart okkur.

Vorið 2010 lenti ég í fyrsta sæti í forvali Vinstri grænna, á sama tíma og ég var‘ann. Daginn eftir fylltust fjölmiðlar af fréttum um að ég hefði svindlað mér í sætið. Ástæðan var sú að keppinautur minn hafði annan skilning á prófkjörsreglunum en ég og kjörstjórn. Til að útskýra það þyrfti ég að segja langa og leiðinlega sögu með útskýringum á reglunum, á samskiptum ólíkra eininga innan flokksins og hver hefði gert hvað og hvernig. Ég nenni því ekki núna en ég reyndi það þá. Það virkaði ekki. Fólk vildi ekki heyra það. Það vildi að ég væri svindlari. Svindlarastimpillinn fylgdi mér í mörg ár á eftir, þótt niðurstaða allra flokkseininga hafi verið að ég hafi fylgt öllum reglum í hvívetna.


SEK UNS SAKLEYSI ER SANNAÐ

Það er auðvelt að rægja umdeildar konur. Og það er auðvelt að skrumskæla málstað sem fólk skilur illa. Það þarf mjög lítið til að fólk trúi því að þessar ofstækisfullu kerlingar séu með eitthvað misjafnt í pokahorninu. En það þarf mjög mikið til að leiðrétta slíkar ásakanir.

Undanfarna daga hefur Edda Falak glímt við nákvæmlega þetta. Meintur gerandi sem telur sig eiga harma að hefna þykist hafa afhjúpað ósannindi í frásögn hennar af einhverjum vinnustað. Honum tókst að sá efasemdum í fjölmiðla þar til meira að segja vel meinandi fólk var farið að öskra á svör. Var Edda að ljúga? Hvar hafði hún unnið og hvenær?


TILKALL OG SKILGREININGARVALD

Það er merkilegt að sjá valdið sem þessi tiltekni meinti gerandi hefur í samfélaginu. Að honum hafi tekist að gera missögn í tveggja ára gömlu viðtali við Eddu að stórmáli. Heil ritstjórn sá sig knúna til að svara og biðjast afsökunar, þó afsökunin hafi því miður aðeins nært fyrirlitningu og hatur í athugasemdakerfunum.

Við erum ekki lengra komin en svo að meintir gerendur hafa meira vald yfir mannorði femínískra aktívista en öll #metoo-hreyfingin yfir mannorði gerenda. Þeim dugar að þefa uppi prentvillu eða stöðumælasekt til að hatrið flæði um internetið. Þeir ríghalda í skilgreiningarvaldið á alvarleika glæpa og gera tilkall til svara og útskýringa á því sem þeim hentar, þegar þeim hentar.


AF HVERJU SVARAR HÚN EKKI?

Edda Falak er ekki ráðherra. Hún hefur hvorki flokk né hreyfingu á bak við sig. Hún er ung kona sem slysaðist í stafn femínísks aktívisma. Og þótt hún njóti stuðnings okkar, femínístanna í kringum hana, þá er hún þar ein. Vinnustaðurinn hennar hefur ekki einu sinni kjark til að hundsa hinn meinta geranda eða benda á óréttlætið sem árásir hans einkennast af.

Ég hef hvatt Eddu til að svara ekki. Karlar eiga erfitt með að skilja það, sér í lagi þeir sem aldrei hafa efast um eigið skilgreiningarvald. En reynsla mín og annarra kvenna sem hafa staðið í sömu sporum segir mér að enginn nenni að lesa útskýringar okkar. Svör okkar leiða bara af sér fleiri spurningar. Fleiri kröfur, meiri efasemdir, minni trúverðugleika og harðari árásir út af enn smávægilegri málum.


SVAR MITT

Starfsferill Eddu Falak skiptir engu máli. Hún getur vel hafa farið frjálslega með sannleikann einhvern tímann, rétt eins og við öll. Edda Falak er sterk, klár og hugrökk kona sem er að brjóta niður múra valdakerfisins. Ég ætla að standa með henni í þeirri vinnu og ég ætla að berjast gegn öllum tilraunum feðraveldisins til að draga úr trúverðugleika hennar og annarra kvenna sem leggja málstaðnum lið.

 
Bestu kveðjur þangað til þá,
Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 15. nóvember 2024
 HUGTAK VIKUNNAR: FORRÉTTINDAFIRRING
Eftir soleytomasdottir 8. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: HITT FÓLKIÐ
Eftir soleytomasdottir 1. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MANNRÉTTINDABROT SEM STEFNUMÁL?
ELDRI FÆRSLUR
Share by: