Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

FÖSTUDAGSHUGLEIÐING Á MÁNUDEGI: KJARNI FEÐRAVELDISINS

Það er allt óhefðbundið við þessa hugleiðingu. Dagurinn, afmörkun efnisins, lengdin. Hún er tilraun til að koma reiðu á hugsanir mínar svo ég geti haldið áfram að vinna. Kannski mun hún hjálpa ykkur. Mér líður allavega betur eftir að hafa bunað þessu út úr mér.

---

Fullt af fólki er reitt út í KSÍ. Það er reitt yfir að Guðni einn taki pokann sinn, að áfram sitji 14 karlar í stjórn KSÍ með tveimur konum. Að þau segi að síðasta yfirlýsing hafi byggt á takmörkuðum upplýsingum þó enn sé óskýrt hversu stór hluti stjórnar hafi vitað af ofbeldisbrotunum og að framkvæmdastýra KSÍ haldi því fram að hún hafi ekki horft á Kastljósviðtalið við Guðna (í heild sinni). Eftir tveggja daga maraþonfund sem endar með yfirlýsingu um að þau ætli að gera hreint fyrir sínum dyrum er eins og skilin milli lyga, blekkingar og raunveruleika séu orðin svo máð að þau viti hreinlega ekki hvar sannleikurinn liggur. Twitter er látið eftir að komast að hinu sanna.

Hvernig má það vera, að eftir allt sem á undan er gengið, sé KSÍ ekki lengra komið? Getur það í alvöru verið að stjórn KSÍ hafi aldrei rætt um ásakanir sem hafa verið vel þekktar öllum sem hafa viljað (og ekki viljað) vita um árabil? -Hvernig stendur á því að ofbeldi kemur ekki inn á borð stjórnar fyrr en á helgarlöngum krísufundi sem snýst samt fyrst og fremst um að bjarga eigin mannorði? -Og hvernig geta þau komist að þeirri niðurstöðu að sitja bara áfram og telja sig þess umkomin að breyta menningu sem stjórnin sjálf hefur skapað og viðhaldið um áratugaskeið? Það er kannski ekkert skrítið að fólk sé reitt.

---

Því hefur stundum verið fleygt að KSÍ sé kjarni feðraveldisins. Að sambandið byggi á og viðhaldi samtryggingu valdamikilla karla. Karla sem vissulega hafi áhuga á fótbolta og vilji veg hans sem mestan, en hafi samt fullt af öðrum hagsmunum og áhugamálum sem þurfi að hlúa að og sinna. Ein og ein kona hefur fengið að slæðast með, en krafan um að þær aðlagist og lúti ríkjandi menningu innan knattspyrnunnar hefur verið alveg skýr. Stjórn KSÍ hefur alltaf verið borin uppi af körlum í valdastöðum, jafnt hjá hinu opinbera sem í einkageiranum, án þess að tekist hafi verið á við spurningar um hæfi og hagsmunaárekstra.

KSÍ hefur fyrir vikið sætt lítilli gagnrýni. Við vitum öll að það þarf að fara varlega þegar KSÍ er annars vegar. Við vitum að það er hættulegt að gagnrýna þessa valdastofnun. Við höfum séð og heyrt hvernig gagnrýni hefur verið tekið af þeirra hálfu. Við höfum heyrt sögur um stelpur sem reyndu að fá sambærilegar aðstæður til íþróttaiðkunar og strákar og uppskáru háð og smánun. Við höfum heyrt um konur sem hafa boðið KSÍ aðstoð í jafnréttismálum sem ekki var þegin. Við höfum séð hvernig gagnrýni á klefamenningu hefur verið látin sem vind um eyru þjóta. Við munum hvernig fjármálastjórinn sem varð uppvís að því að nota kreditkort KSÍ á strippklúbbi var varinn af þáverandi formanni. Við munum eftir háðinu vegna framboðs Höllu Gunnarsdóttur til formanns KSÍ. Það er svo ótalmargt sem hefur kennt okkur að KSÍ er ofurefli við að etja.

Þetta á ekki bara við um fótboltastelpur, foreldra eða aktívista sem langar til að breyta. Sveitar- og ríkisstjórnir hafa passað upp á að koma til móts við kröfur KSÍ um battavelli, keppnisvelli, stúkur og starfsaðstöðu – og tilraunir til að skilyrða framlög og stuðning vegna jafnréttis eða mannréttinda hafa verið veikburða. Fjölmiðlar vita líka að fátt er mikilvægara en fótboltinn. Því er eins gott að halda knattspyrnuhreyfingunni góðri, til að fá að fylgja henni og gulldrengjum hennar eftir í æsispennandi viðureignum um allan heim. Fagleg og gagnrýnin fréttamennska má sín lítils gagnvart slíkum hagsmunum. Þá sjaldan að skandalar KSÍ hafa ratað í fjölmiðla, hafa formennirnir komist upp með að 
ljúga og rægja gagnrýnendur mótbárulaust.

---

Rétt eins og þolendur hvísla sín á milli um ofbeldismenn, þá hefur þjóðin hvíslað um KSÍ. Fyrir utan áreitið, nauðganirnar og heimilisofbeldið höfum við hvíslað um fótboltamenninguna og hliðarkúltúrinn sem dýrkar dr. Football, Ingó Veðurguð og Egil Einarsson. Við höfum hvíslað um áhyggjur okkar af litlum frændum sem alast upp í klefamenningunni og við höfum hvíslað um ömurlegan veruleika stelpna í fótbolta. Við höfum hvíslað um það hvernig knattspyrnuhreyfingin elur á eitraðri karlmennsku með ofuráherslu á hraða, snerpu og hörku í sókn og vörn. Við höfum hvíslað, af því það hefur ekki verið óhætt að tala upphátt.


„There is nothing stronger than a broken woman who has rebuilt herself“
-Hannah Gadsby



Íslensk kvennasamstaða hefur verið að eflast á undanförnum árum. Ekki síst fyrir tilstuðlan myllumerkjabyltinga á borð við #höfumhátt, #konurtala og #metoo. Konur hafa fundið styrk í sögum hver annarrar. Þeim hefur vaxið kjarkur til að segja meira og tala hærra. Hvíslin eru að breytast í öskur sem verða ekki þögguð. Ekki einu sinni af KSÍ.

Þessi kvennasamstaða hefur gert hugrökkum konum kleift að tala hátt og snjallt. Framganga Hönnu Bjargar Vilhjálmsdóttur og Þórhildar Gyðu Arnarsdóttur undanfarnar vikur hefur verið aðdáunarverð, enda hefur seigla þeirra yfirbugað vel þekktar þöggunaraðferðir KSÍ.

Í raun má segja að atburðir undanfarinna daga séu til marks um að femínísk barátta sé að nálgast kjarna feðraveldisins. Þó afhjúpuð stjórnin sitji áfram hefur hún tapað trúverðugleika og skilgreiningarvaldinu. Við erum komin að kjarnanum og þurfum að ákveða hvað við ætlum að gera við hann.

Það er ekkert lögmál að knattspyrnan byggi á karllægum gildum. Hraði, snerpa og harka í sókn og vörn skipta kannski bara litlu máli í samanburði við samvinnu, stuðning, virðingu og næmni fyrir hæfileikum og þörfum samherja og andstæðinga. Það er ekki heldur neitt lögmál að knattspyrnu sé stýrt af valdakörlum. Þvert á móti er löngu tímabært að í stjórn KSÍ sitji blanda fólks af öllum kynjum með fjölbreyttan bakgrunn, enda löngu sannað að einsleitar stjórnir gera lítið gagn.

---
 
Jafnvel þótt núverandi stjórn KSÍ væri raunveruleg alvara með yfirlýsingum sínum um breyttar áherslur, þá mun hún ekki ráða við að breyta ein og sér. Við þurfum að öll að leggjast á eitt. Ríkis- og sveitarstjórnir þurfa að endurskoða stuðning, styrki og samskipti við hreyfinguna, fjölmiðlar þurfa að láta af meðvirkninni og þjálfarar, iðkendur, foreldrar, áhugafólk og við hin sem höfum takmarkaðan áhuga fyrir íþróttinni þurfum að leyfa okkur að tala hátt og skýrt um það sem betur má fara. Af því KSÍ hefur áhrif á okkur öll.


Bestu kveðjur,


Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 8. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: HITT FÓLKIÐ
Eftir soleytomasdottir 1. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MANNRÉTTINDABROT SEM STEFNUMÁL?
Eftir soleytomasdottir 25. október 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: KVENNAÁRIÐ 2025
ELDRI FÆRSLUR
Share by: