Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
Nú eru allar stofnanir landsins að yfirfara og endurbæta verkferla sína vegna kynbundins ofbeldis. Það er mikilvægt á meðan kynbundið ofbeldi er enn viðtekið í samfélaginu. Ég hef glöð aðstoðað fyrirtæki og félagasamtök við gerð og endurskoðun slíkra ferla en hef þó ekki enn séð eða náð að gera hinn fullkomna verkferil.
Allir verkferlar verða að byggja á forsendum þolenda sem sum vilja ljúka málum með sátt á meðan önnur vilja aldrei þurfa að sjá gerendur sína. Sum vilja að málin séu unnin fyrir opnum tjöldum, önnur ekki. Sum þurfa á utanaðkomandi aðstoð að halda, önnur ekki. Þess vegna er flókið að ákveða fyrirfram hvaða reglur eiga að gilda. Ég ítreka að verkferlar eru mikilvægir, en þeir eru ekki lausn. Allt ferlatal KSÍ hefur sannarlega sýnt fram á það.
Við erum öll afurð umhverfis okkar, sérstaklega í uppvextinum. Við lærum til hvers ætlast er af okkur gegnum fjölskyldu okkar, í skólanum, í frístundum, hjá vinum, gegnum fjölmiðla, dægurmenningu og samfélagsmiðla.
Við lærum skráðar og óskráðar reglur og fylgjum þeim án þess að átta okkur á því. Dæmi: Við bjóðum góðan dag ef við mætum fólki í göngutúr í Heiðmörk en látum okkur ekki detta í hug að gera slíkt hið sama í Kringlunni.
Við aðlögumst tískustraumum og fylgjum þeim án þess að átta okkur á því. Dæmi: Sjálf hef ég upplifað a.m.k. tvö tímabil þar sem ég vel útvíðar gallabuxur og önnur tvö þar sem ég vel aðsniðnar. Lengi vel hélt ég að þetta væri sjálfstæð ákvörðun út frá mínum persónulega smekk, en það var víst engin tilviljun.
Með sama hætti lærum við óskráðar reglur um stelpur og stráka, karlmennsku og kvenleika, og aðlögum okkur að þeim. Á meðan samfélagið keppist við að ala á áhættusækni, ákveðni, hörku og hetjudýrkun meðal stráka og karla og ótta, fórnfýsi, mýkt og hógværð hjá stelpum og konum erum við að auka líkurnar á að karlar beiti konur ofbeldi.
Áður en lengra er haldið vil ég taka fram að við erum öll ábyrg gjörða okkar og ofbeldi er alltaf á ábyrgð gerenda. En. Við þurfum líka að axla ábyrgð sem samfélag. Við þurfum að brjóta upp staðalmyndir sem ala á ofbeldisfullri hegðun, brjóta upp vítahring eitraðrar karlmennsku og gerendameðvirkni.
Allt sem við gerum, sem einstakingar, félagasamtök, stofnanir eða fyrirtæki, hefur áhrif á samfélagið. Allt sem við gerum getur ýmist styrkt, viðhaldið eða brotið upp staðalmyndir um karla og konur. Ef okkur er alvara með að uppræta kynbundið ofbeldi verðum við að skoða hverja einustu ákvörðun af auðmýkt, með kynjagleraugun rétt stillt á nefinu.
Allar stofnanir samfélagsins þurfa að fara í naflaskoðun. Það þarf að endurskoða menntun, fjölmiðlun, dægurmenningu, stjórnmál og almennt alla vinnustaði eða vettvanga þar sem fólk kemur saman. Ekki bara aðildarfélög KSÍ.
Fyrir utan verkferlana þurfa allar stofnanir samfélagsins á markvissri og reglulegri fræðslu að halda um jafnrétti og fjölbreytileika. Allar stofnanir þurfa að rýna starfsemi sína, leiðrétta verðmætamat og endurskoða áherslur. Þannig getum við lagt okkar af mörkum í þágu samfélags þar sem allt fólk getur notið sín og verið öruggt.
Bestu kveðjur,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl