Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

HUGLEIÐING VIKUNNAR: HVAR ENDAR ÞETTA?

Undanfarnar vikur hef ég verið að vinna fyrir Vertonet, félag kvenna og kvára í upplýsingatækni. Mitt hlutverk er að moða úr því efni sem samtökin hafa viðað að sér í leiðarvísi að jafnrétti, fjölbreytileika og inngildingu (JFI) á vinnustöðum. Markmiðið er að leiðarvísirinn verði opinn og aðgengilegur öllum þeim sem vilja nýta sér hann.


Ásdís Eir Símonardóttir var driffjöður verkefnisins lengi framan af. Hún stóð fyrir frábærum rafrænum vinnudegi, þar sem fólk gat sett hugmyndir, efni, tengla og athugasemdir inn á svæði Vertonet meðan Ásdís ræddi við fólk um málaflokkinn í beinni útsendingu. Nú er hún róin á önnur mið og mér hefur verið falið að vinna úr efninu og setja það fram. Það er stórskemmtilegt og lærdómsríkt verkefni sem vonandi mun gagnast öðrum. Við munum kynna fyrstu drög á hvatningardegi Vertonet 3. apríl og stefnum að formlegri útgáfu í maí.

 

UPPHAFSMAT 


Eitt af því sem varð á vegi mínum í þessari vinnu er eins konar upphafsmat á stöðu málaflokksins. Það er tæki sem forsvarsfólk vinnustaða getur notað til að greina stöðuna og ákveða hvernig þau vilja þróa málaflokkinn innanhúss.


Það góða (en jafnframt flókna) við stöðumatið er að enginn vinnustaður sem ég veit um gæti fengið fullt hús stiga. Alls staðar eru tækifæri til bætingar. Upphafsmatið inniheldur 10 spurningar um vægi JFI á ólíkum sviðum starfseminnar. Matið verður hluti af endanlegum leiðarvísi og ég ætla ekki að setja það allt hér inn, en dæmi um spurningu er:


Hvaða fjármagn er sett í JFI á vinnustaðnum?

a) Það er ekki gert ráð fyrir neinum kostnaði í málaflokknum

b) Við höfum ekki skilgreint fjármagn en munum skoða það í fyrirhugaðri stefnumótun

c) Það greitt fyrir afmörkuð verkefni í málaflokknum, en hann er ekki hluti af fjárhagsáætlun fyrirtækisins

d) Gert er ráð fyrir fjármagni í málaflokkinn eins og aðra kjarnaþætti starfseminnar

 

Mælst er til þess að spurningarnar séu ræddar á opnum fundum þar sem hópar ræða sig niður á svör. Í kjölfarið eru hóparnir beðnir um að hugsa upp leiðir til úrbóta á hverju sviði og forgangsraða verkefnunum. Niðurstöður vinnunnar fara svo í frekari rýningu og stefnumótun hjá þar til bærum aðilum á vinnustaðnum.

 

ENDALAUS VINNA


Ég er stundum spurð að því hvenær þetta hætti. Hvenær fullkomnu jafnrétti verði náð og við getum farið að snúa okkur að öðru. Svarið er aldrei. JFI er ekki eitt afmarkað verkefni sem hægt verður að ljúka, heldur munum við alltaf þurfa að vera á tánum. Rétt eins og með tækninýjungar, þurfum við stöðugt að læra nýja hluti, þroskast, breytast og aðlagast eftir því sem þekkingu á uppbyggingu og hindrunum valdakerfisins vindur fram. Við munum alltaf þurfa mannafla, tíma og fjármagn til að byggja upp, þróa, endurskoða og endurgera ferla, venjur, stjórnunarhætti og alla aðra þræði vinnustaðarmenningarinnar ef við viljum að hún sé jákvæð, uppbyggileg og inngildandi. 


Ég hlakka til að segja ykkur betur frá leiðarvísi Vertonet og mæli mjög með hvatningardegi samtakanna þann 3. apríl. Hlakka til að sjá sem flest ykkar þar og vinna áfram að inngildandi upplýsingatækni.


Bestu kveðjur,

Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 28. mars 2025
SPURNING VIKUNNAR: ERU KONUR AÐ TAKA YFIR?
Eftir soleytomasdottir 7. mars 2025
 HUGLEIÐING VIKUNNAR: MENNINGARBRÚ
Eftir soleytomasdottir 21. febrúar 2025
HUGMYNDAFRÆÐI VIKUNNAR: SKÓLI ÁN AÐGREININGAR
ELDRI FÆRSLUR
Share by: