Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
VONBRIGÐI VIKUNNAR: FÁLÆTI STJÓRNVALDA
Fyrir þremur árum sögðu systurnar Brynja og Gígja Skúladætur frá harðræði og ofbeldi sem þær urðu fyrir á meðferðarheimilinu Varpholti í Eyjafirði sem unglingar. Í vikunni komu þær aftur fram í fjölmiðlum og lýstu því sinnuleysi sem hefur ríkt síðan þá. Í kjölfar fyrra viðtalsins var starfsemin rannsökuð, en skýslan sem skrifuð var er hvergi aðgengileg.
Þessi leyniskýrsla og afsökunarbeiðni á lokuðum fundi með ráðherra er allt sem gerst hefur síðan þær berskjölduðu sig fyrir alþjóð. Þær segjast standa verr en áður, enda hafi það tekið sinn toll að opna á erfiða reynslu án þess að geta lokað málinu í sátt. Að hafa lagt þetta á sig í þágu réttlætis en mætt fálæti í staðinn.
EKKI EINSTAKT TILFELLI
Í gegnum tíðina hafa einstök heimili og úrræði verið skoðuð og einhver mál gerð upp. Öll sú vinna hefur verið knúin fram af brotaþolum sem hafa þurft að berskjalda sig og berjast fyrir áheyrn og réttlæti. Fræg eru dæmin um Breiðavík, Landakotsskóla og Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins. Ekkert þessara mála hefur verið gert upp að frumkvæði hins opinbera og enginn niðurstaða hefur verið fyllilega í samræmi við væntingar brotaþola.
Enn á eftir að gera upp fullt af málum og við vitum örugglega bara af hluta þeirra. Enn hefur ekkert verið aðhafst vegna framkomu hins opinbera gagnvart stúlkum og konum á hernámsárunum á Íslandi. Þrátt fyrir umfangsmiklar rannsóknir og fjölmiðlaumfjöllun um hrottaleg mannréttindabrot, hefur enn ekki tekist að fá Alþingi til að hefja rannsókn á starfsemi vinnuhælisins á Kleppjárnsreykjum. Það er því ljóst að brotaþolar á borð við Brynju og Gígju eiga mikið verk fyrir höndum ef fram heldur sem horfir.
EKKI BARA EINSTAKLINGAR
Þó þessi mál snúist um ofbeldi gagnvart einstaklingum og að þau sem um ræðir eigi að sjálfsögðu að fá sanngjara meðferð sinna mála, þá eru öll þessi mál afleiðing kerfisbundins misréttis gagnvart konum og jaðarsettu fólki í samfélaginu.
Á hernámsárunum var stúlkum og konum refsað fyrir að ögra skilgreiningarvaldi karla á hegðun, framkomu og kynfrelsi kvenna. Fátækum drengjum var misþyrmt á Breiðavík í samfélagi sem þótti í lagi að taka fátæk börn frá foreldrum sínum og senda eftirlitslaus í einangrun hjá fólki sem hafði hvorki forsendur né hæfi til að fara með það vald sem því var veitt. Börnunum í Landakotsskóla var misþyrmt af fólki sem misnotaði óskorað vald sitt í krafti stöðu, þekkingar og trúarbragða. Vöggustofubörnin bjuggu við vanrækslu og harðræði af svipuðum ástæðum og Breiðavíkurmálið byggði á; skorti á virðingu, samkennd og velferðarþjónustu í allt of stéttskiptu samfélagi.
SAMFÉLAGSLEGAR BREYTINGAR
Það þarf að gera upp öll þessi mál af virðingu og sanngirni gagnvart brotaþolum. Hluti af því er að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að svona geti endurtekið sig. Það gerum við með því að byggja upp samfélag jafnréttis og inngildingar, þar sem erfiðara er að misnota vald, hvort sem það byggist á kyni, stétt, stöðu, trúarbrögðum eða blöndu af þessum þáttum.
Þetta getum við gert sem einstaklingar, í samskiptum við annað fólk, í grasrótarvinnu, aktívisma eða stjórnmálum. Ef við leggjumst öll á eitt, getum við stuðlað að betra lífi fyrir Gígjur, Brynjur og allt annað fólk framtíðarinnar.
Bestu kveðjur,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl