Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

HVATNING VIKUNNAR: KJÓSUM!

Einu sinni bjó ég við þau forréttindi að mæta sannfærð á kjörstað. Að merkja umhugsunarlaust við flokkinn minn, fullviss um að hann væri langbesti kosturinn.
 
Eins og vill verða með önnur forréttindi, tók ég þeim sem sjálfsögðum hlut þar til ég missti þau. Þegar ég stóð allt í einu frammi fyrir því að kjósa án þess að vera fullsátt. Það var þá sem ég áttaði mig á hversu gott ég hafði haft það. Fæst fólk er jafnsannfært og ég var í gamla daga. Enda ómögulegt að nokkurt framboð geti verið í fullu samræmi við skoðanir nokkurrar manneskju.
 
Það kemur líklega ekki á óvart, en ég hef alltaf kosið það framboð sem ég treysti best í jafnréttis- og fjölbreytileikamálum. Núna kýs ég það framboð sem ég treysti skárst í jafnréttis- og fjölbreytileikamálum. Hvort sem það er af því að framboðin hafi versnað, ég orðið kröfuharðari eða að ég líti þau gagnrýnni augum en áður veit ég ekki.

ÍHALDSSEMI

Stjórnmál eru í eðli sínu íhaldssöm. Lýðræðið okkar, flokkarnir, umræðuhefðin og viðfangsefnin eiga rætur sínar að rekja til forréttindakarlanna sem lögðu grunninn í eldgamla daga. Þó fjölbreytileikinn hafi aukist, konum hafi fjölgað og einstaka fólk úr jaðarhópum hafi komist til áhrifa eru áherslurnar enn karllægar og íhaldssamar.

Árið 2021 hafa mörg framboð ágætar stefnur í jafnréttis- og fjölbreytileikamálum, en þær eru hvergi í forgrunni. Kynbundinn launamunur, kerfislægur rasismi, fötlunarfordómar, kynbundið ofbeldi, átraskanir, áhættuhegðun og vanlíðan barna eru ekki forgangsmál hjá neinu framboðanna. Því miður.
 
Fjölmiðlar eru líka íhaldssamir og hafa haldið sig við sígildar spurningar um efnahagsmál, ESB, kvótakerfi og orkunýtingu í almennum kosningaþáttum. Undanteking frá þessu er Jakob Birgisson sem mun krefja framboðin svara um jafnréttismál á RÚV í kvöld kl. 20.30. Ég hvet ykkur til að fylgjast með því.

LÝÐRÆÐIÐ

Hvað sem öllu þessu líður, þá ráðum við sjálf. Í þessu pínulitla lýðræðissamfélagi okkar getum við haft áhrif með beinni þátttöku í starfi framboðanna, með samtali við fulltrúa framboðanna, með greinarskrifum og umræðum á samfélagsmiðlum, í fjölskylduboðum, saumaklúbbum og á kaffistofum. Við getum tekið þátt í starfi grasrótarfélaga og við getum búið til okkar eigin félög. Svo getum við auðvitað kosið.
 
Þessi hugleiðing er skrifuð fyrir búbbluna mína. Til fólks sem velur sér að fá senda vikulega pósta um jafnrétti og fjölbreytileika. Fólks sem langar að sjá framfarir og gera betur á þessu sviði. Þess vegna nota ég þennan vettvang núna til hvatningar.
 
Ég hvet ykkur, kæru lesendur, til að mæta á kjörstað og kjósa jafnrétti og fjölbreytileika. Kjósa það framboð sem þið treystið best eða skárst til að auka jafnrétti og fjölbreytileika í samfélaginu. Það framboð sem þið teljið að muni tryggja réttindi, tækifæri, öryggi, vellíðan og þátttöku fólks af öllum kynjum og óháð stöðu að öðru leyti.
 
Bestu kveðjur,
 
Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 15. nóvember 2024
 HUGTAK VIKUNNAR: FORRÉTTINDAFIRRING
Eftir soleytomasdottir 8. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: HITT FÓLKIÐ
Eftir soleytomasdottir 1. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MANNRÉTTINDABROT SEM STEFNUMÁL?
ELDRI FÆRSLUR
Share by: