Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

HUGTAK VIKUNNAR: KLEFAMENNING

Klefamenning hefur talsvert verið rædd í kjölfar KSÍ málsins, enda á kynbundið ofbeldi rætur sínar að rekja til skaðlegra staðalmynda og óheilbrigðrar menningar sem oft fær að grassera í litlum einsleitum hópum.
 
Sjálf hef ég kallað eftir umræðum um klefamenningu og skorað á fótboltavini mína að deila sögum en fátt varð um svör. Ekki einu sinni frá körlum sem hafa staðið með konum og femínískri baráttu. Þvert á móti lýstu margir þeirra bara samstöðu, hvatningu og hlýhug í klefunum og þvertóku fyrir að þar þrifist margt misjafnt. Ég var hugsi yfir þessu, enda ekki langt síðan karlar deildu átakanlegum sögum í #karlmennskan átakinu.
 
Svo kom ein saga. Svo hræðileg að ég get ekki haft hana eftir, en hægt er að lesa hana 
hér. Viðbrögðin komu mér mjög á óvart. Það opnaðist engin flóðgátt. Það varð ekkert #metoo eða #karlmennskan eða #klefamenning. Nei, langflestir karlar sem deildu sögunni létu fylgja skilaboð um að þeir hefðu aldrei upplifað neitt þessu líkt. Og þar við sat.

#NOTALLMEN

Sagan var vissulega hræðileg og örugglega hárrétt að fáir hafi upplifað sambærilegt. En þetta er samt mjög ólíkt hinum bylgjunum. Konur deildu ekki #metoo sögunum til þess eins að segjast EKKI hafa lent í slíku. Enda hefði þá aldrei orðið nein bylting. Afneitunarraddirnar hefðu kæft sögurnar og hindrað að fleiri yrðu sagðar. Eins og ég óttast að geti gerst varðandi klefamenninguna.
 
Kannski var það einfeldni að búast við sprengju. Af því krafan er öðruvísi en áður. Í #metoo og #karlmennskan sögðu þolendur frá því sem þau höfðu orðið fyrir. Nú er verið að biðja karla um að segja frá því sem þeir hafa orðið vitni að án þess að bregðast við, jafnvel því sem þeir hafa sjálfir tekið þátt í að gera.

Kannski er líka eðlilegt að karlar finni hjá sér þörf fyrir að sverja af sér hegðun eins og lýst er í sögunni. Það er hætt við að svona hegðun skapi tortryggni gagnvart öllum klefum. Það er snúið og ósanngjarnt. En það er engu að síður nauðsynlegt að sagan sé sögð og viðurkennd sem svæsin birtingarmynd. Betur hefði farið á því að karlarnir fordæmdu hegðunina í stað þess að sverja hana af sér persónulega.

#KLEFAMENNING

Sumir karlar, sem hafa talað fallega um klefana sjálfa, segjast þó hafa orðið varir við fordóma og niðurlægingu í öðru samhengi, á djamminu eða öðrum vettvangi. Kannski er hugtakið gallað að því leyti – en látum þar við sitja. „Feðraveldið“ snýst ekki um feður og #höfumhátt snérist ekki um öskur. Hugtakið vísar til menningar sem elur á og viðheldur fordómum í afmörkuðum hópum.
 
Klefinn er ekki bara á fótboltavellinum. Hann nær líka til:


  • Fótboltaliðsins sem hlær að dr. Football og dillar sér í takt við Egil Einarsson á djamminu. Jafnvel þótt einhverjum finnist það óviðeigandi.
  • Vinahópsins úr barnaskóla sem aldrei óx upp úr því að tala um Sigga feita og Villa homma. Jafnvel þó flestum í hópnum þyki það óviðeigandi.
  • Veiðiklúbbsins þar sem stemningin gengur út á að vera fegnir að vera lausir við kellingarnar. Jafnvel þó fæstir myndu tala svona undir öðrum kringumstæðum.
  • Kaffistofunnar þar sem „svartur einkahúmor“ fær að grassera. Jafnvel þó mörgum þyki nóg um.


Við vitum öll að klefarnir eru misjafnir og að klefamenning hefur líklega batnað í kjölfar femínískrar vitundarvakningar í samfélaginu. Ég efast samt ekkert um áðurnefnda sögu. Við vitum um að hómófóbía, kvenfyrirlitning og rasismi hafa fengið að grassera í gegnum tímans rás – og gerir enn í sumum klefum. Ekki öllum. Kannski fáum. En það skiptir ekki máli.

#VERTUMEÐ

Ef við ætlum að breyta samfélaginu verðum við að hlusta, trúa og horfast í augu við ábyrgð okkar og hegðun, meðvirkni og ótta. Það þarf hugrekki til að segja frá, það þarf hugrekki til að trúa og það þarf hugrekki til að gangast við eigin ábyrgð og breyta öllum þeim fjölbreyttu klefum sem við tilheyrum.

Bestu kveðjur,

Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 15. nóvember 2024
 HUGTAK VIKUNNAR: FORRÉTTINDAFIRRING
Eftir soleytomasdottir 8. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: HITT FÓLKIÐ
Eftir soleytomasdottir 1. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MANNRÉTTINDABROT SEM STEFNUMÁL?
ELDRI FÆRSLUR
Share by: