Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
HUGLEIÐING VIKUNNAR: LÝÐRÆÐI Í FJÖLMENNINGARSAMFÉLAGI
Ég mæli mjög með áhorfi á síðasta Kveik, þar sem fjallað var um lýðræðisþátttöku í fjölmenningarsamfélagi. Erlendir ríkisborgarar eru um 16% allra sem búa á Íslandi, eða um 60.000 talsins. Þau hafa komið hingað af ólíkum ástæðum, sum af ævintýramennsku, önnur til að vinna, einhver eltu maka eða nám og hluti hópsins nýtur hér alþjóðlegrar verndar.
Hefðbundin lýðræðisvirkni felst fyrst og fremst í kosningaþátttöku, en hún hefur almennt verið að dragast saman. Frá 2006 til 2022 fór kosningaþátttaka íslenskra ríkisborgara úr 70% í 65% og erlendra ríkisborgara úr 40% í 14%. Erlendir ríkisborgarar taka síður þátt í stjórnmálastarfi, eru neðarlega á framboðslistum, ef þau eru þar yfir höfuð og málefni innflytjenda eru afar lítill hluti af stefnuskrám stjórnamálaflokka.
ALMENN ÞÁTTTAKA
Lýðræði byggir á fleiru en hinum formlega stjórnmálavettvangi. Fólk þarf að geta tekið virkan þátt frá degi til dags, á vinnumarkaði, í félagsstarfi og samfélagsumræðu. Miklu er ábótavant á öllum þessum sviðum. Á vinnumarkaði er ekki öll erlend menntun metin til jafns við innlenda. Það hefur neikvæð áhrif á sjálfsmynd og félagslega stöðu fólks. Íslenskunám er dýrt og óaðgengilegt fyrir stóran hóp innflytjenda og félagslegt bakland þeirra er minna en Íslendinga.
VÍK Í MÝRDAL
Það var uppörvandi að sjá umfjöllun allt það sem breyst hefur til batnaðar í Vík á undanförnum árum. Þar hefur fjölgun erlendra ríkisborgara snúið sveitarfélaginu af braut hnignunar og fólksfækkunar í uppbyggingarsveitarfélag, þar sem hægt er að fjárfesta í innviðauppbyggingu í fyrsta skipti í langan tíma. Árið 2010 bjuggu þar 470 íslendingar og 30 erlendir ríkisborgarar. Í dag búa þar 950 einstaklingar, þar af 570 erlendir.
Í Vík er pólítískt enskumælandi fagráð sem hittist einu sinni í mánuði. Á fundunum ráðsins gerir sveitarstjóri grein fyrir stöðu mála, svarar spurningum og tekur á móti ábendingum. Viðmælendur Kveiks sögðu ráðið hafa haft góð áhrif á sveitarfélagið og alla íbúa þess.
ÞURFA INNFLYTJENDUR KANNSKI BARA AÐ VERA DUGLEGRI?
Það er mikið mál að flytja á milli landa, sama hver ástæða flutningsins er. Flestir innflytjendur þurfa að læra tungumál og byggja upp nýtt líf með öllu sem því tilheyrir (húsnæði, starfi, vinum, kunningjum, áhugamálum o.s.frv.).
Sjálf er ég innflytjandi í Hollandi. Ég er í algerri forréttindastöðu, bý með Hollendingi, þekkti landið vel áður en ég flutti og var með smá grunn í hollensku. Ég hef búið hérna í 7 ár, er hvít, kem úr tiltölulega líkri menningu, menntun mín er metin að verðleikum, ég tala málið bærilega og ég á nóg af peningum. Samt er ég stundum úrvinda af því það er stöðug vinna að vera innflytjandi.
Mér líður aldrei eins og ég sé hollensk. Þrátt fyrir brennandi áhuga á samfélags- og stjórnmálum almennt hefur mér ekki tekist að skilja hollenska pólítík almennilega, ég á fjórar vinkonur og nokkra kunningja. Ég get rétt ímyndað mér hvernig það væri ef ég nyti ekki allra ofangreindra forréttinda.
VIÐ ÞURFUM ÖLL AÐ VERA DUGLEGRI
Innflytjendur eru duglegir. Það eitt að flytja til þessarar skrítnu eyju og reyna að aðlagast samfélaginu þar er afrek út af fyrir sig. Það erum við innfæddu sem þurfum að vera duglegri. Bera virðingu fyrir þekkingu og færni fólks þó hún sé ekki úr skólakerfi sem við eigum að venjast og setja það ekki fyrir okkur þó fólk tali með hreim eða geri málvillur. Við þurfum að búa til bakland, vera ígildi fjölskyldna eða æskuvina, veita ráðgjöf, útskýra hluti sem við héldum að krefðust ekki útskýringa og svo margt margt fleira.
Ísland er orðið að fjölmenningarsamfélagi. Það er okkar allra að þróa það þannig að öllum líði þar vel. Gerum það saman!
Bestu kveðjur,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl