Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
HUGLEIÐING VIKUNNAR: SAMTVINNUN OG FORRÉTTINDI
Hinsegin dagar standa nú yfir og ná hámarki í gleðigöngunni á morgun. Ég fæ gæsahúð við tilhugsunina, held ég að ég hafi aldrei komist í gegnum þann dag ógrátandi. Þó ég falli undir öll norm hin- og kynseginflórunnar, gleður þessi hátíð mig svo innilega. Það er stórkostlegt að sjá blöndu af fagnaðarlátum yfir árangri og reiði yfir óréttlæti, að ógleymdum öllum hópunum sem ganga til að sýna stuðning við hinseginflóruna í verki. Það reynir mjög á tárakirtlana þegar hópar foreldra, félagasamtaka, vinnustaða, íþróttafélaga og stjórnmálafólks ganga framhjá með skilaboð um ást, virðingu og samstöðu.
Á SAMA TÍMA
Í dag verða að minnsta kosti þrjár konur settar réttindalausar á götuna. Þær Esther, Mary og Blessing voru allar seldar í vændi frá Nígeríu til Ítalíu þaðan sem þeim tókst að flýja til Íslands. Hér hefur þeim verið hafnað um alþjóðlega vernd, þó þeim sé augljóslega mikil hætta búin bæði á Ítalíu og í Nígeríu. Mansalsglæpahringir eru engin lömb að leika sér við.
Samkvæmt nýjum lögum missir fólk sem ekki hlýtur alþjóðlega vernd á Íslandi öll réttindi eftir 30 daga. Konurnar þrjár eiga því hvorki rétt á aðstoð varðandi fæði og húsaskjól, hvað þá félagslegri eða lagalegri aðstoð. Þær eru flæmdar út á guð og gaddinn í þeirri von að þær fari úr landi. Bara eitthvert. Af því nýju útlendingalögin snúast um að einfalda Íslendingum að losa sig við fólk í neyð – í stað þess að axla ábyrgð á aukinni þörf fyrir alþjóðlega vernd fólks á tímum loftslagsbreytinga, óeirða og uppgangs glæpahringja.
SAMTVINNUN
Þó það megi fagna mörgu í gleðigöngu morgundagsins er ótalmargt sem þarf að laga. Allt kerfið er gegnsýrt af gagnkynhneigðarhyggju, trans og kynsegin fólk býr við stöðuga ógn um aðkast, áreiti og ofbeldi og svo tvinnast staða hinsegin fólks oft saman við annars konar jaðarsetningu.
Samtvinnunin getur meðal annars falist í því að fatlað samkynhneigt fólk mæti sérstökum fordómum sem byggja annars vegar á því að samfélagið lítur oft ekki á fatlað fólk sem kynverur og hinsvegar á hómófóbíu. Annað dæmi eru sérstakir fordómar gagnvart fólki sem hér sækir um alþjóðlega vernd vegna kynhneigðar þar sem því er gert að sanna kynhneigð sína með einhverjum hætti.
FORRÉTTINDI
Samtvinnun er alltaf flókin. Það tók mig langan tíma að skilja það og ég var lengi að hnoða saman textanum hér að ofan. Ég er stöðugt að læra eitthvað nýtt og vonandi við öll. En það eru forréttindi að finnast þetta flókið. Þetta er nefnilega ekkert flókið fyrir fólkið sem verður fyrir þessu. Þau finna fyrir áþreifanlegum fordómum, mismunun, ofbeldi og útskúfun.
Esther, Mary og Blessing mæta samtvinnuðum fordómum sem þarf að greina og skilja og útskýra og leiðrétta. Þær eru svartar konur sem hafa verið í vændi og leita alþjóðlegrar verndar. Undir öllum eðlilegum kringumstæðum er nóg að vera svört eða kona eða í vændi eða í leit að alþjóðlegri vernd til að mæta fordómum.
ÁBYRGÐ FORRÉTTINDAFÓLKS
Við verðum að fara varlega með forréttindin okkar. Við megum ekki hundsa stöðu fólks sem mætir hindrunum sem við mætum ekki, þó það sé auðveldast fyrir okkur. Við þurfum að læra og skilja og greina og virða það sem fólk upplifir. Við verðum að beita okkur til að uppræta fordómana og afmá hindranirnar.
Ég hvet ykkur öll til að leggja ykkar af mörkum – og svo má mín vegna setja spurningamerki við trúverðugleika stjórnmálafólksins sem á morgun mun standa með hinsegin fólki eftir að hafa kastað þeim Esther, Mary og Blessing út á götu í dag.
Bestu kveðjur,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl