Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
HUGLEIÐING VIKUNNAR: STERKAR KONUR
Í gær sat ég og renndi í gegnum netmiðla á tattústofu á meðan ég beið eftir að fá mitt fyrsta húðflúr. Sú yfirferð gaf skýrt til kynna að Elísabet II ætti ekki mikið eftir, enda var tilkynnt um andlát hennar sama kvöld. Þá var ég komin með Línu Langsokk á upphandlegginn.
SAMTÍÐARKONUR
Elísabet II ólst upp við alsnægtir. Hún bjó allt sitt líf í höllum og kastölum, naut aðstoðar og þjónustu við hversdagslegustu verkefni og fékk menntun sem nýttist henni í því sem vitað var frá fæðingu að yrði hennar ævistarf. Æska hennar og uppeldi gekk allt út á að undirbúa hana undir að verða drottning. Að verða ein valdamesta kona heims. Að takast á við valdakarla hvaðanæva að, úr stjórnmálum, trúmálum, fjölmiðlum og listum án þess að nokkurn tímann bæri skugga á virðingu krúnunnar. Siðir, hefðir, venjur, viðmið, reglur og kurteisi voru ekki síður mikilvæg en stjórnmálafræði og saga. Elísabet var 25 ára þegar hún var gerð að drottningu árið 1952.
Sjö árum áður, árið 1945 kom fyrsta bókin um Línu Langsokk út. Lína var líka kóngsdóttir, hún átti mjög mikið af peningum en að öllu öðru leyti var líf Línu öðruvísi en Elísabetar. Hún bjó ein í óhrjálegu húsi. Hún naut hvorki umönnunar, þjónustu eða formlegrar menntunar. Hennar æska gekk út á sjálfstæði og að finna frumlegar leiðir til að ýmist lifa af eða njóta lífsins. Hún tókst vissulega á við valdhafa, en fyrst og fremst vegna þess að hún var á skjön við samfélagsleg viðmið um siði, hefðir, venjur, reglur og kurteisi.
GAGNRÝNDAR KONUR
Eins og allar áhrifamiklar konur hafa Elísabet og Lína sætt umtalsverðri gagnrýni. Elísabet var táknmynd íhaldseminnar og viðhélt heimsvaldastefnu, misrétti, úreltum gildum og staðalmyndum. Hún hefur verið gagnrýnd fyrir að bera ábyrgð á þrúgandi óhamingju innan konungsfjölskyldunnar, fyrir að taka ekki harðar á Andrew syni sínum þrátt fyrir sterkan grun um alvarleg ofbeldisverk og fyrir að setja almennt krúnuna ofar lífsgæðum og hamingju almennings.
Lína var gagnrýnd fyrir að vera óheilbrigður boðskapur til barna. Óhefluð framkoma hennar og lífsgildi voru talin hafa vond áhrif á lesendahópinn og ala á leti, sjálfselsku, tillitsleysi og veruleikaflótta.
[Hér sleppi ég viljandi gagnrýni sem báðar hafa sætt um rasisma. Ekki vegna þess að sú gagnrýni sé ekki réttmæt, en hún væri efni í lengri skrif og greiningu á tíðarandanum um miðja síðustu öld.]
ÁHRIFAKONUR
Þrátt fyrir allt hafa báðar þessar konur haft gríðarleg áhrif á veruleika fólks um víða veröld. Elísabet ríkti yfir 56 löndum og bækurnar um Línu hafa verið þýddar á 76 tungumál. Kannski höfðuðu þær til ólíkra hópa, Elísabet til íhaldssamari hóps og Lína til frjálslyndari, en líklegt þykir mér þó að flest okkar kunni að meta eitthvað úr fari beggja.
Reynslan hefur kennt mér að vissulega er mikilvægt að þekkja hefðir, reglur og kurteisisviðmið til að geta haft áhrif. Það þýðir þó ekki að ég fylgi þeim alltaf. Þvert á móti er mikilvægt að við séum gagnrýnin og leyfum okkur að brjóta upp það sem þarf, enda er það nauðsynlegt ef við viljum stuðla að betri heimi fyrir okkur öll. Það er engin tilviljun að ég er með Línu á upphandleggnum.
Bestu kveðjur,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl