Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
Í dag vil ég benda ykkur á frábært viðtal við Najmo Fyiasko Finnbogadóttur á RÚV . Saga Najmo er merkileg, barátta hennar fyrir valdeflingu kvenna í Sómalíu er mikilvæg og nálgun hennar gagnvart misrétti er djúp og áhrifarík. Það sem hún segir í þessu stutta viðtali væri efni í marga pistla en mig langar sérstaklega að staldra við tvennt:
Ég get ekki ímyndað mér þjáningu kvenna í Sómalíu eða reynt að setja mig í spor Najmo varðandi það sem hún hefur upplifað. Misrétti á Íslandi er smámál í samanburði við misrétti víða um heim. En ástæðurnar eru þær sömu alls staðar og leiðirnar sem hún bendir á eru fæ rar alls staðar.
Allar framfarir í þágu mannréttinda hafa orðið vegna þess að fólk þorði að benda á misréttið, tala um það og krefjast breytinga. Þetta á við um allskonar framfarir í þágu kynjajafnréttis, s.s. kosningarétt, fæðingarorlof, þungunarrrof og ofbeldi, en ekki síður framfarir í þágu svarts og brúns fólks, fatlaðs fólks, feits fólks og annarra jaðarsettra hópa.
Umræða um þessi mál er ekki einföld, sérstaklega ekki í byrjun. Hún á það til að stilla körlum upp á móti konum, hvítu fólki á móti svörtu, ófötluðu á móti fötluðu o.s.frv. En eins og Najmo bendir á er enginn einn sökudólgur. Ef við viljum uppræta misrétti verðum við að breyta menningunni. Við verðum öll að líta í eigin barm og skilja að sumt af því sem við gerum skapar og viðheldur misrétti. Ekki af því við ætlum okkur það eða séum illa innrætt, heldur af því okkur hefur verið kennt það og við vitum ekki betur.
Að lokum vil ég hrósa Najmo og Sigmari fyrir tjáningarformið í þættinum. Sveigjanleiki í málnotkun er algert lykilatriði fyrir fólk sem ekki er með sama móðurmál og alger óþarfi að binda tjáninguna við eitt tungumál.
Svokallað skilningstungumál, eða lingua receptiva , byggir á því að við skiljum oft tungumál þó við getum ekki tjáð okkur almennilega. Þessi leið, þegar fólk talar það tungumál sem því líður best með svo fremi sem annað fólk skilur, getur auðveldað og bætt samskipti fólks til muna.
Þá er þessum fyrstu hugleiðingum lokið.
Takk fyrir lesturinn, góða helgi og bestu kveðjur frá Hollandi.
Sóley Tómasdóttir
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl