Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
Hið svokallaða
Sofagate mál átti sér stað í síðustu viku. Von der Leyen og Michel fóru sem forsetar Evrópusambandsins á fund með Recep Tayyip Erdogan forseta Tyrklands. Á fundinum hafði verið stillt upp tveimur stólum þó fundargestir væru þrír og eftir nokkurn vandræðagang settust karlarnir þar niður á meðan Von der Leyen tyllti sér á sófa spölkorn frá.
Þarna gerðu þau það sem við höfum flest gert: Brugðust asnalega við grímulausri kvenfyrirlitningu. Þau hafa öll verið gagnrýnd, Erdogan fyrir að stilla stólunum upp með þessum hætti, Von der Leyen fyrir að láta bjóða sér þetta og Michel fyrir að setjast í stað þess að láta Von der Leyen eftir sætið eða bregðast við með öðrum hætti.
Gagnrýnin á rétt á sér, þessi uppákoma var óviðeigandi og ferlegt að ekkert hafi verið aðhafst. Forsetar stofnunar sem kennir sig við jafnrétti og mannréttindi hefðu átt að siða Tyrklandsforseta til. En setjum okkur í þeirra spor. Hugsum um tilfelli þegar við höfum sjálf upplifað mismunun, útilokun eða óviðeigandi hegðun og ekki vitað hvernig við ættum að bregðast við.
Hefði Von der Leyen getað brugðist við sjálf? Sagt að þarna væri greinilega ekki gert ráð fyrir henni af því hún væri kona? -Vissulega, en þá hefði henni líklega verið sagt að þetta væri oftúlkun og viðkvæmni, þarna væri misskilningur á ferð sem hefði ekkert með kynferði að gera. Hún gat ekki vitað hvernig Michel myndi bregðast við. Jafnvel þótt hann væri sammála, hefði honum getað þótt óviðeigandi að bregðast við á staðnum og þá stæði hún ein.
Hefði Michel getað brugðist við með sama hætti? -Já. Hann hefði kannski fengið sambærileg svör um misskilning, en ólíklega verið sakaður um oftúlkun og viðkvæmni. Gagnrýni karla er almennt talin hlutlægari og uppbyggilegri en kvenna, jafnvel þótt hún sé sett fram með sama hætti. Michel hefði líka getað sest sjálfur í sófann. En hann gerði það ekki, af því hann er afsprengi menningar sem gerir ráð fyrir að karlar séu í aðalhlutverki og konur í aukahlutverki. Hann er örugglega allur af vilja gerður til að breyta þessu, en datt það ekki í hug á þeim stutta tíma sem gafst til að bregðast við. Sjálfur segist hann hafa upplifað
svefnlausar nætur eftir fundinn og sjá innilega eftir að hafa ekki breytt með öðrum hætti.
Þó konur mæti ekki jafn grímulausri mismunun á Íslandi og í Tyrklandi er enn mikið verk óunnið. Á hverjum degi lendir fólk í sambærilegum aðstæðum og forsetarnir tveir, að vita ekki hvort og þá hvernig það eigi að bregðast við íslenskum birtingarmyndum kynjamisréttis, s.s. ósanngjörnum stöðuveitingum eða óviðeigandi uppákomum.
Við upprætum ekki kynjamisrétti með því að siða Erdogan einan til. Við þurfum að horfa innávið, vera tilbúin að bæta eigin menningu, eigin hegðun og eigin viðbrögð. Við munum aldrei bregaðst rétt við öllu sem gerist í lífi okkar, en við getum æft okkur, lært og prófað. Og umfram allt: Tekið mark á gagnrýni sem beinist að okkur sjálfum. Það er svo efni í annan pistil.
Þá er þessu lokið í dag. Góða helgi!
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl