Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
Í vikunni sat myndarlegur maður í sjónvarpinu okkar allra og grét örlög sín. Honum höfðu orðið á smávægileg mistök sem höfðu haft skelfilegar afleiðingar. Mistökin fólust í að senda stelpu tippamynd. Hann hélt hún væri 18 ára en hún reyndist yngri. Hann hélt hún vildi þetta en hún var að ljúga. Í kjölfarið missti hann vinnuna og björt framtíð hans sem leikara varð að engu. Hann hefur ekki fengið starf síðan, enda samfélagið fullt af heift. Hann er útskúfað fórnarlamb slaufunarmenningar.
Daginn eftir fylltust kaffistofur landsins af samúð gagnvart aumingjans manninum. Miklar umræður sköpuðust um dómstól götunnar, flekkleysi, syndir, fyrirgefningu, tækifæri og byltingar sem éta börnin sín. Um foreldra sem fylgjast ekki með samfélagsmiðlanotkun barnanna sinna og óábyrga hegðun stelpna sem rústa mannorðum karla.
Á sama tíma var fjöldi kvenna í sárum. Þolendur mannsins, aðstandendur þolenda og aktívistar vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Þolendurnir veltu fyrir sér hvort og þá hvernig þær gætu sagt frá því sem myndarlegi maðurinn í sjónvarpinu hefði gert þeim. Mæður, systur og vinkonur veltu fyrir sér hvernig þær gætu hjálpað og stutt. Aktívistar veltu fyrir sér hvernig hægt væri að koma öðrum hliðum málsins að án þess að ýta enn undir jarðsprengju- og hakkavélarímyndina.
Ég hef áður fjallað um hugtakið „hannúð“ (e. himpathy), hina óviðeigandi og ýktu samúð með valdamiklum körlum sem beita kynbundnu ofbeldi og koma fram með óviðeigandi hætti gagnvart konum. Allt í þeim pistli á svo sem vel við í dag.
Að trúa því að 36 ára karl hafi verið rekinn úr vinnu og útskúfaður úr samfélaginu fyrir að senda eina umbeðna tippamynd til einnar stelpu sem laug og sveik, finna til samúðar með honum og reiðast stelpum og femínístum og meintri slaufunarmenningu er skýrt dæmi um hannúð.
Rannsóknarspurning Kveiks var hvenær gerendur geti snúið til baka í samfélagið. Viðmælandinn var aldrei krafinn svara, heldur var spurningunni varpað út í kosmósið og hefur ómað um allt síðan þá. Þolendur, aðstandendur þolenda og aktívistar hafa verið krafðir svara æ ofaní æ. Hvað sé sanngjarnt og hvenær þetta sé komið gott.
Þarna gætir aftur umtalsverðrar hannúðar. Ábyrðin á endurkomu gerenda er sett á herðar þolenda. Þolendur verða að gerendum og gerendur að þolendum. Það skapar pressu á konurnar sem hafa verið að rífa upp gömul sár og vinna úr erfiðri reynslu að drífa sig. Þeir þurfi að fá að koma til baka.
Ég hef ítrekað sagt að öll úrvinnsla verði að vera á forsendum þolenda. Að það sé ekki hægt að leggja eina línu af því þarfir og úrvinnsla þolenda sé svo mismunandi. Það er satt og rétt. En ekki allt.
Það er nefnilega ekki þolendanna að endurvinna traustið. Það er gerendanna. Þeir geta ekki bara setið og beðið eftir að þolendur vinni úr ofbeldinu. Þeir þurfa að axla ábyrgð, bæta ráð sitt og ávinna sér traust samfélagsins. Það gera þeir ekki með því að gráta örlög sín í sjónvarpinu án þess svo mikið sem að viðurkenna gjörðir sínar.
Það er skiljanlegt að saga leikarans hafi vakið samúð. Hún var sorgleg eins og hún var sögð. En við getum ekki tekið afstöðu til kynferðisbrota út frá henni, né heldur dregið ályktanir um slaufunarmenningu, hakkavélar eða jarðsprengjusvæði.
Við verðum að vera á varðbergi gagnvart hannúðinni okkar. Muna að þriðja hver kona verður fyrir ofbeldi einhvern tímann á lífsleiðinni og skilja að það ofbeldi fremur sig ekki sjálft. Við verðum að setja ábyrgðina þar sem hún á heima. Hjá gerendum. Það er þeirra að endurvinna traust þolenda, vinnuveitenda og samfélagsins alls.
Bestu kveðjur,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl