Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

HUGLEIÐING VIKUNNAR: KJÁNAHROLLUR FRAMTÍÐAR

Miklar umræður hafa átt sér stað um söngleikinn Svo á himni í vikunni. Þær hófust með leikhúsgagnrýni Nínu Hjálmarsdóttur, þar sem hún gagnrýndi verkið fyrir óvandaða persónusköpun og leikaraval fyrir Dodda, fatlaða persónu í verkinu. Nína segir verkið draga upp og styrkja neikvæðar staðalmyndir um fatlað fólk sem eilíf börn sem séu upp á aðra komin, þar sem lítið er gert úr tilfinningum og ástarlífi hans en mikið úr niðurlægjandi uppákomum. Að Doddi sé svo leikinn af ófötluðum einstaklingi segir Nína vera sk. cripfacesem er sambærilegt við blackface og þykir óviðeigandi með öllu.



UMRÆÐAN

Heilmiklar umræður hafa skapast í kjölfarið. Edda Björgvinsdóttir telur gagnrýnina vega að heiðri atvinnuleikara, hún hafi starfað mikið með fötluðu fólki í leihúsum en á forsendum áhugaleikhúsa en ekki atvinnumennsku. Leikstýran Unnur Ösp Stefánsdóttir fjallar um málið á enn persónulegri hátt, sem móðir fatlaðs barns. Hennar markmið var að Doddi yrði túlkaður af virðingu, skilningi og kærleika, en áskoranir hans og fordómarnir sem hann mætir kæmu skýrt fram í verkinu.
 
Embla Guðrúnardóttir Ágústsdóttir og Freyja Haraldsdóttir hafa báðar tekið undir upprunalegu gagnrýnina og svarað Eddu og Unni með greinandi og sannfærandi hætti. Embla bendir réttilega á að margir ástsælustu leikarar landsins séu ekki leikaramenntaðir og því sé undarlegt að gera kröfu um menntun sem stendur fötluðu fólki alls ekki til boða. Freyja bendir á að janfvel þótt ófatlaðir foreldrar verði vissulega vitni að útilokun, fordómum og jaðarsetningu fatlaðra barna sinna, hafi þau ekki reynslu af því sjálf og geti því ekki sagt þeirra sögu öðruvísi en út frá sjónarhóli ófatlaðs fólks.



SJÁLFVIRK VARNARVIÐBRÖGÐ

Þetta mál er tilvalið til greiningar út frá sjálfvirkum varnarviðbrögðum, ferlinu sem fólk fer í gegnum ef það verður uppvíst að óvðeigandi hegðun eða mismunun:


  1. Vanlíðan: Þetta er rangt og það er ómaklega að mér vegið.
  2. Afneitun: Gagnrýnin byggir á tilfinningasemi, húmorsleysi eða jafnvel mannvonsku.
  3. Réttlæting: Þetta var ekki af ásetningi, heldur eru ástæður fyrir því sem ég gerði.
  4. Sátt: Gagnrýnin er réttmæt og ég get breytt hegðun og/eða framkomu.
  5. Úrvinnsla: Ég hef lært og mun leggja mig fram um að þetta endurtaki sig ekki.



Viðbrögð Eddu og Unnar Aspar eru enn að mestu leyti á fyrstu stigum viðbragðsferilsins, þær falla í sk. able-splaning til að útskýra og réttlæta nálgun verksins. Það er alls ekki til marks um að þær séu vondar konur eða vilji gera lítið úr fötluðu fólki, heldur vegna þess að gagnrýnin er óþægileg, sársaukafull og á skjön við sjálfsmynd þeirra sem upplýstar, vel meinandi og góðar manneskjur sem auk þess hafa heilmikla persónulega og dýrmæta þekkingu á veruleika fatlaðs fólks.
 
Unnur Ösp boðar reyndar að Þjóðleikhúsið muni boða til málþings um birtingarmyndir raunveruleikans innnan leikhússins, sem er til marks um fjórða og/eða fimmta stigið. Að það sé raunverulegur vilji til að hlusta á gagnrýnina og finna leiðir til að læra, breyta og koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig.


HVAR ENDAR ÞETTA?

Þetta endar ekki. Við erum stöðugt að læra. Í dag fáum við kjánahroll við að hugsa um Ingvar E. Sigurðsson blakkfeisaðan í Hárinu árið 1994, þó okkur hafi þótt það eðlilegt þá.

Samfélagið þokast sem betur fer áfram í að hlusta, skilja og taka tillit til reynsluheims, upplifana, þarfa og krafna jaðarsetts fólks. Það krefst þess að við hlustum á gagnrýni, tökum hana til okkar, lærum af henni, setjum hana í samhengi og leggjum okkur fram um að breyta. Við eigum langt í land með að skilja hvernig valdakerfi samfélagsins jaðarsetur fatlað fólk. Þess vegna gerum við mistök, jafnvel þó við séum upplýstar, vel meinandi og góðar manneskjur í grunninn.

Ég vona sannarlega að boðað málþing um birtingarmyndir raunveruleikans innan leikhússins verði að veruleika á vegum Þjóðleikhússins og að einn góðan veðurdag sameinumst við í kjánahrolli yfir því sem við skiljum ekki almennilega í dag en verðum vandlega meðvituð um í framtíðinni.a þau.


Bestu kveðjur,


Sóley


Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 8. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: HITT FÓLKIÐ
Eftir soleytomasdottir 1. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MANNRÉTTINDABROT SEM STEFNUMÁL?
Eftir soleytomasdottir 25. október 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: KVENNAÁRIÐ 2025
ELDRI FÆRSLUR
Share by: