Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

KÖNNUN VIKUNNAR: UPPLÝSINGAÓREIÐA OG SKAUTUN

Í síðustu viku kom út skýrsla um niðurstöður spurningakönnunar Maskínu fyrir fjölmiðlanefnd um upplýsingaóreiðu og skautun í íslensku samfélagi. Í könnuninni var settur fram listi yfir fjölmarga samfélagshópa og þátttakendur beðnir að merkja við þá sem þeim mislíkar mjög.

Niðurstöðurnar má sjá í myndinni hér að ofan. Hana mætti auðveldlega túlka sem svo að andstæðingar bólusetninga og þungunarrofs, loftslagsafneitunarsinnar, þjóðernissinar og vopnasafnarar mættu mestu mótlæti í samfélaginu. Aftur á móti líki mjög fáum illa við konur, hinsegin fólk, innflytjendur og atvinnulaust fólk. Þannig býður skýrslan upp á svo mikla rangtúlkun á raunveruleikanum að ég óttast að hún geri meira ógagn en gagn þegar kemur að upplýsingaóreiðu og skautun.

MEÐVITUÐ OG ÓMEÐVITUÐ HLUTDRÆGNI

Það er mikilvægt að gera greinarmun á meðvitaðri og ómeðvitaðri hlutrdægni þegar niðurstöður eru skoðaðar. Eins og ég hef áður skrifað, þá erum við ekki eins meðvituð og ábyrg og við viljum vera. Þó við trúum því að við séum pólítískt réttsýn og jákvæð gagnvart réttindum minnihlutahópa, eru tilvikin alltof mörg þar sem okkur tekst að rökstyðja að tiltekinn karl eigi að vera á hærri launum en tiltekin kona, að tiltekinn þolandi hljóti að vera að ljúga upp á tiltekinn geranda eða að tiltekin fötluð manneskja geti ekki gegnt einhverri tiltekinni stöðu. Tilvik þar sem rökstuðningurinn hefst oftar en ekki með afneitun á karlrembu, gerndameðvirkni eða fötlunarfordómum. Tilvik sem eru svo sérstök að það er ekki annað hægt. Tilvik sem eru samt svo algeng að þau byggja undir valdakerfi kynbundins launamunar, gerendameðvirkni og fötlunarfordóma.

VALDAKERFIÐ

Valdakerfi samfélagsins skapar fordóma og hindranir sem hafa áhrif á líf, líðan og tækifæri kvenna, kvára og jaðarsetts fólks. Andstæðingar bólusetninga, þungunarrofs og þjóðernissinnar búa ekki við slíka jaðarsetningu. Þetta valdakerfi er ekki búið til af vondum körlum með illan ásetning. Það er að stærstum hluta byggt á ómeðvitaðri hlutdrægni, tengingum og skoðunum sem byggja á aldagömlum og úreltum viðmiðum. Jaðarsetningin heldur áfram að vera til staðar á meðan fólk kemst upp með að segjast vera femínistar en haga sér sem karlrembur.

Óvinsældakönnun Maskínu og fjölmiðlanefndar er líkleg til að ýkja enn á misskiptingu í samfélaginu með því að skapa upplýsingaóreiðu um jaðarsetningu og mótlæti. Hún hefur þegar kallað fram þessa hugleiðingu sem gæti allt eins kallað á andsvar frá andfemínistum eða þjóðernissinum og þar með líkleg til að auka á skautun.

UPPLÝST UMRÆÐA

Ég vona innilega að fjölmiðlanefnd láti ekki hér við sitja, heldur stuðli að upplýstri umræðu um forréttindi og hindranir í valdakerfinu þar sem kafað er ofan í áhrif ólíkra valdaþátta og hvernig þeir tvinnast saman. Á meðan verðum við hin að vera gagnrýnin á fyrirliggjandi upplýsingar og hvernig þær eru matreiddar af fjölmiðlum, vera dugleg að rýna í ómeðvitaða hlutdrægni okkar sjálfra og annarra og hjálpast að við að draga úr áhrifum hennar á fólkið í kringum okkur.

 
Bestu kveðjur,
Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 15. nóvember 2024
 HUGTAK VIKUNNAR: FORRÉTTINDAFIRRING
Eftir soleytomasdottir 8. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: HITT FÓLKIÐ
Eftir soleytomasdottir 1. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MANNRÉTTINDABROT SEM STEFNUMÁL?
ELDRI FÆRSLUR
Share by: