FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


HUGLEIÐING VIKUNNAR: HLAUPASTYRKUR OG FRIÐUR Á JÖRÐ

Undanfarin 10 ár hef ég eiginlega alltaf hlaupið 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu. Það er ekkert betra en að hlaupa í geggjaðri stemningu og lifa það sem eftir er dags á gleðinni yfir að hafa tekið þátt. Ég viðurkenni reyndar að gleði mín hefur verið blendin, enda hef ég alltaf verið lélegur hlaupari og aldrei staðið undir væntingum eigin keppnisskaps þegar kemur að tíma.


Í ár hafði ég því ákveðið að hlaupa ekki. Ég hef hlaupið sögulega lítið á árinu og var viss um að ég yrði svo ósátt við tímann minn að betra væri að sleppa þessu. Ætlaði bara að hvetja unga og spræka fólkið áfram. Fannst það samt frekar leiðinlegt og þegar dóttir mín benti mér á að val mitt stæði á milli þess að koma í mark óánægð með eigin tíma eða standa í marki óánægð með að hafa ekki hlaupið, ákvað ég að skrá mig til leiks.


Ég á eftir að skrifa meira um líkamsrækt, líkamsvirðingu og sjálfsmynd miðaldra kvenna þegar líða tekur á haustið. Þessi hugleiðing beinist fyrst og fremst að maraþoninu á morgun.

 

HLAUPASTYRKUR


Áheitasöfnun Reykjavíkurmaraþonsins er stór hluti af fjármögnun þriðja geirans á Íslandi. Í dag hafa safnast rúmar 232 milljónir króna sem munu nýtast einstaklingum, grasrótarsamtökum og stofnunum sem þurfa að reiða sig á fjárframlög utan hins opinbera.


Það má að sjálfsögðu deila um réttmæti þess að lífsnauðsynleg samtök á borð við Píeta, Stígamót, Bergið og Kvennaathvarfið þurfi að reiða sig á frjáls framlög einstaklinga. En á meðan staðan er þannig, þá er mikilvægt að almenningur leggi sitt af mörkum.

 

FRJÁLS PALESTÍNA!


Sjálf hef ég safnað áheitum fyrir ýmiskonar mikilvæg grasrótarsamtök gegnum tíðina. Í ár safna ég fyrir Félagið Ísland-Palestína og dauðskammast mín fyrir að hafa ætlað að láta hégóma stoppa mig í að hlaupa. Ég er frjáls. Ég er södd. Ég bý við eins mikið öryggi og kona getur búið við. Ég get hlaupið ef mér sýnist. Á Gaza hleypur fólk til að bjarga lífi sínu. Ef það hefur einhvern mátt vegna hungursneyðarinnar sem ríkisstjórn Ísraels hefur framkallað.


Það er fáránleg staðreynd að ég sé að fara að baða mig í aðdáun hvetjenda á morgun, smella mér svo í sturtu og bröns með vinkonum á meðan börn eru myrt úti í heimi. En þannig verður það nú samt.


Ég bið ykkur því að leggja ykkar af mörkum. Það er enn hægt að skrá sig í hlaupið og safna áheitum og það er sannarlega hægt að heita á hlaupara. Ég tek að sjálfsögðu glöð við áheitum, en það er fullt af öðru fólki að hlaupa fyrir Ísland-Palestínu og Vonarbrú og þar skiptir hver króna máli.


Njótum morgundagsins. Hlaupum ef við getum, söfnum, heitum á, hugsum til fólksins sem ekki getur gert allt þetta og beitum okkur fyrir friði, öryggi og sanngirni í heiminum.


Bestu kveðjur,

Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 4. júlí 2025
HUGLEIÐING VIKUNNAR: ALVARLEIKI GLÆPA
Eftir soleytomasdottir 20. júní 2025
HUGLEIÐING VIKUNNAR: HÁTÍÐARHÖLD Á 19. JÚNÍ
Eftir soleytomasdottir 13. júní 2025
HUGLEIÐING VIKUNNAR: REIÐAR KONUR
ELDRI FÆRSLUR