Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


HUGMYNDAFRÆÐI VIKUNNAR: SKÓLI ÁN AÐGREININGAR

Enn eina ferðina hefur sprottið upp neikvæð umræða um skóla án aðgreiningar. Ástæðan að þessu sinni er vandamál í Breiðholtsskóla sem virðist ekki hafa verið tekið á sem skyldi. Óteljandi fréttir hafa verið fluttar af áhyggjufullum foreldrum, hræddum kennurum, og úrræðalitlu stjórnmálafólki þar sem skuldinni er oftar en ekki skellt á skóla án aðgreiningar. Að þessi hugmyndafræði sé gengin of langt og fólk ráði bara ekkert við þetta lengur.

 

HVAÐ ER SKÓLI ÁN AÐGREININGAR?

 

Samkvæmt aðalnámskrá þýðir skóli án aðgreiningar að öll börn eigi rétt á grunnmentun í nærumhverfi sínu þar sem komið er til móts við náms- og félagslegar þarfir hvers og eins með manngildi, lýðræði og félagslegt réttlæti að leiðarljósi. Nafnið er barn síns tíma, óþjál þýðing á inclusive education sem í dag yrði þýdd sem inngildandi skólastarf.


Skóli án aðgreiningar er hluti af þróun samfélags sem einu sinni lokaði konur inni á heimilum, hinsegin fólk inni í skápum, fatlað fólk inni á stofnunum og útlendinga í útlöndum. Skólar sem einu sinni voru bara fyrir íslenska yfirstéttardrengi eru orðnir að grunnstoð og jöfnunartæki, þar sem öll börn eiga að njóta öruggrar og góðrar menntunar í samræmi við þarfir og aðstæður hverju sinni.

 

VANDAMÁLIN

 

Ef skóli án aðgreiningar hefur gengið of langt, er þá verið að leggja til að við aukum aðgreiningu í samfélaginu? Að við takmörkum aðgengi að grunnmenntun? Að börn verði skikkuð í sérskóla eða inn á stofnanir? -Slík umræða býður upp á enn ýktari fordóma, rasisma og fötlunarfóbíu (eins og ofangreind mynd ber vitni) og veldur óöryggi meðal jaðarsettra barna og aðstandenda þeirra.


Fjölbreytileikinn er vissulega flókinn. En hann er til staðar og við verðum að takast á við hann. Við gerum það ekki með fordómum eða afturför í aðgreiningu og misskiptingu, heldur með því að vanda okkur enn betur við inngildandi vinnulag.

 

LAUSNIRNAR

 

Grunnskólarnir eru ekki fullkomnir en þeir eru mikilvægir fyrir öll börn. Það er ekki í boði að gefast upp. Við verðum að forgangsraða fjármagni, mannauð, fræðslu og tíma þannig að hægt sé að takast á við fjölbreytileikann á forsendum fjölbreytileikans.


Við verðum að borga kennurum almennileg laun. Við verðum að tryggja að þeir hafi tíma og svigrúm til að vinna vinnuna sína. Við verðum að hjálpa þeim að læra um og skilja og virða fjölbreyttar þarfir og gera þeim mögulegt að þróa tæki, tól, aðferðir og úrræði til að koma til móts við þær.


Grunnskólarnir eru og verða ein af grunnstoðum velferðarsamfélagsins. Stöndum með þeim, styrkjum þá og eflum og tryggjum að þar fái öll börn notið sín.


Bestu kveðjur,

Sóley

Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 14. febrúar 2025
HUGLEIÐING VIKUNNAR: ATHYGLISVERÐAR TEIKNIMYNDIR
Eftir soleytomasdottir 7. febrúar 2025
 HUGLEIÐING VIKUNNAR: HVAÐ ER HÆFNI?
Eftir soleytomasdottir 31. janúar 2025
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MIKILVÆGI FJÖLBREYTILEIKANS 
ELDRI FÆRSLUR
Share by: