Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
HUGLEIÐING VIKUNNAR: EUROVISION
Í gær sendu samtök evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) frá sér tilkynningu um að Ísrael verði með í Eurovision í Malmö í ár. Í tilkynningunni kemur fram að ísraelska ríkissjónvarpið uppfylli öll skilyrði fyrir þátttöku í keppninni og áréttað að hún sé á milli sjónvarpsstöðva en ekki ríkisstjórna. Loks er því enn einu sinni haldið fram að keppnin sé ópólítísk og til þess gerð að sameina áhorfendur um víða veröld með tónlist.
Fyrir 11 mánuðum síðan sendu sömu samtök frá sér tilkynningu um að Rússland mætti taka þátt, en degi síðar hafði þeim snúist hugur og meinuðu Rússum þátttöku. Sá viðsnúningur er ekki síst talinn vera pressu frá norrænum sjónvarpsstöðvum að þakka.
ÓPÓLÍTÍSK?
Eurovision er rammpólítískt fyrirbæri. Það er pólítísk ákvörðun að hafa sameiningu sem meginmarkið keppninnar. Mörg lög hafa unnið út á hreina pólítík, af því skilaboð þeirra hafa snúist um að brjóta upp staðalmyndir, stuðla að friði eða samstöðu með einhverju sem höfðar til áhorfenda. Þannig hefur keppnin öðlast sess í hinseginsamfélaginu og undanfarin ár hefur kvennapólítík orðið fyrirferðarmeiri í henni.
Það var pólítísk ákvörðun að hafna Rússum. Það var pólítísk ákvörðun að hampa Úkraínu. Það var pólítísk ákvörðun að refsa RÚV fyrir palestínska fánann. Það er pólítísk ákvörðun að leyfa Ísrael að vera með. Það minnsta sem EBU getur gert er að viðurkenna það.
SAMSTAÐA MEÐ ÞJÓÐARMORÐINGJUM
Vegna markmiðsins um að Eurovision sé sameinandi hefur þátttaka Ísraels í keppninni alltaf verið umdeild. Ísrael hefur þjarmað að Palestínu í áratugi, en undanfarna mánuði hafa árásirnar magnast upp í eitthvað sem ekki er hægt að kalla annað en þjóðarmorð. Þetta er ekki ein afmörkuð innrás. Þetta er ekki hefðbundið stríð. Þetta eru ekki átök jafnvígra fylkinga. Þetta er þjóðarmorð stórveldis á þjóð sem skortir allt.
Eurovision með Ísrael getur ekki orðið sameinandi. Ef Ísrael tekur þátt í vor verður keppnin ævarandi minnisvarði um kjark- og sinnuleysi Evrópulanda á meðan á útrýmingu palestínsku þjóðarinnar stóð.
Í DAG?
Ákvörðun stjórnar EBU hefur áður verið breytt. Norrænu sjónvarpsstöðvarnar (og kannski fleiri) lögðust á eitt til að hindra þátttöku Rússa í fyrra sem var sjálfsagt og eðlilegt. Og án þess að gera lítið úr því, er vel hægt að fullyrða að þörfin sé jafnvel enn brýnni í ár.
Við sem óbreyttir einstaklingar breytum kannski ekki miklu. Og þó. Við getum skorað á stjórnvöld, stjórn RÚV og útvarpsstjóra að beita sér. Við getum staðið með tónlistarfólkinu sem vill hundsa keppnina. Við getum hundsað keppnina sjálf. Því ég má ekki til þess hugsa að Ísland sem hefur viðurkennt sjálfstæði Palestínu og skapað sér ímynd sem friðelskandi lítið land taki þátt í Eurovision með Ísrael í vor. Við sjáum í gegnum kröfuna um samstöðu og ópólítík, við skiljum skaðann sem þessi krafa veldur og stöndum keik með fólki sem þarf á okkur að halda.
Bestu kveðjur,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl