Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
Ég undirbjó mig ágætlega fyrir upptöku Kveiksþáttarins sem sýndur var í kvöld. Kom ekki nema hluta af því sem mig langaði að segja að, svo hér koma hugrenningar um þrjú hugtök sem eiga sinn þátt í að þagga niður í þolendum og femínistum en ég náði ekki að útskýra almennilega.
Það er undarlegt að hugtakið hafi ekki orðið til fyrr en krafan um að gerendur í opinberum stöðum axli ábyrgð er orðin hávær. Þetta er til marks um hannúð (e. himpathy) sem Kate Manne hefur skilgreint sem óviðeigandi og ýkta samúð með valdakörlum sem haga sér ósæmilega eða beita kynbundnu ofbeldi. Hannúðin í síðasta Kveiksþætti birtist okkur í því að gerandi var málaður upp sem þolandi þolenda sinna - og svo var spurningunni varpað fram um hvenær menn sem hefðu misstigið sig gætu komið aftur í samfélagið.
Spurningin ein og sér er mjög áhugaverð enda felur hún í sér að gerendur hafi yfirgefið samfélagið. Það hefur þó hefur varla gerst. Sumir (langfæstir) hafa mögulega dregið sig tímabundið í hlé. Þolendur hafa aftur á móti yfirgefið samfélög sín í hrönnum. Ég veit ekki hversu marga þolendur ég þekki sem hafa flúið land til að losna undan druslu- og þolendaskömmun. Þolendur sem gáfust upp á að reyna að ræða ofbeldi sem þær urðu fyrir eða flúðu triggerana sem fylgdu því að hafa gerendur sína fyrir augum í öllum helstu fjölmiðlum daginn út og inn. Hugtakið er þannig algert ónefni og gerir fátt annað en að drepa umræðunni á dreif.
Svarið við spurningu Kveiks er ekkert flókið: Þegar þeir hafa áunnið sér traust samfélagsins, vinnuveitenda og þolenda sinna. Og það þurfa gerendurnir að eiga við þessa tilteknu hópa. Sérfræðingar geta ekki útkljáð slík mál í sjónvarpssal.
opinber smánun/HAKKAVÉLIN
Opinber smánun hefur tíðkast frá því löngu áður en samfélagsmiðlar komu til. Sjálf hef ég sannarlega lent í hakkavélinni. Ég hef verið smellubrella allra lélegustu fjölmiðla landsins þar sem ég hef verið reið og hjólað í og hellt mér yfir. Ég var sökuð um kosningasvindl og fullyrt að ég elskaði ekki son minn. Myndin sem dregin var upp af mér kallaði fram hreint hatur, ég sat undir hótunum um nauðganir og líkamsmeiðingar og þorði varla út úr húsi um tíma. Á endanum brann ég út, hætti í pólítík og flutti til útlanda.
Ég er ekkert einsdæmi. Konur sem hafa staðið í framvarðarsveit femínískra gilda hafa allar sætt svipaðri meðferð. Konurnar í Öfgum fá regluleg hótunarbréf, Hildur Lilliendahl er úthrópuð og hugtök eins og femínasistar og tálmunarmæður flæða um kommentakerfi internetsins. Þetta er sannarlega öflugur varnarleikur gegn konum sem ögra ríkjandi valdakerfi og krefjast óþægilegra breytinga. Cynthia Enloe segir að feðraveldið þrífist á kulnun kvenna.
Það mætti svo sem skilgreina samfélagsmiðlabyltingarnar sem opinbera smánun. Að konur tali um ofbeldi gerenda sinna. Það er örugglega ömurlegt fyrir þá. En þá skulum við hafa í huga að langfæstir þeirra manna sem hafa verið í umræðunni hafa verið nafngreindir af þolendum. Þeir sáu um það sjálfir. Egill Einarsson sendi frá sér fjölda tilkynninga án þess að hann hefði nokkurs staðar verið nafngreindur og Sölvi Tryggvason stóð í umfangsmikilli þáttargerð til að fjalla um sitt mál. Og hvað gerðist í kjölfarið? -Gjörðir þeirra ollu vissulega reiði meðal afmarkaðs hóps, en hannúðin lét ekki á sér standa. Stuðningsfólk þeirra og aðdáendur kepptust við að gera lítið úr upplifunum þolenda þeirra með drusluskömmun og upphrópunum um falskar ásakanir og sakleysi uns sekt sé sönnuð. Og hvað umræddan Þóri varðar, þá hefur hannúðin sannarlega ekki látið á sér standa.
Aftur er merkilegt að sjá hvernig opinber smánun og hakkavélar verða að áhyggjuefni þegar meintir gerendur verða fyrir umtali. Raunin er sú að þessu hefur verið beitt oftar, harkalegar og ómálefnalegar gagnart þolendum og femínistum en nokkru sinni meintum gerendum. Þar spilar hannúðin stórt hlutverk.
Að lokum vil ég að segja, að það er ekkert athugavert við að fólk þori ekki að ræða þessi mál af ótta við að segja eitthvað vitlaust. Mér dettur ekki í hug að blanda mér í umræður um burðarþol eða möskvastærðir. Ég hef ekki vit á því og yrði örugglega rökþrota á örfáum mínútum. Það er samt ekki skilgreint sem jarðsprengjusvæði af því þekkingin á burðarþoli og möskvastærð er viðurkennd sem sérfræðiþekking.
Kynjamisrétti virðist aftur á móti ennþá bara vera skilgreint sem skoðun en ekki staðreynd sem hefur verið þaulrannsökuð af kynjafræðingum. Aktívistar og kynjafræðingar byggja á þekkingu og reynslu sem þarf að meta að verðleikum í samfélaginu, rétt eins og aðra sérfræðiþekkingu. Það er bara óeðlilegt að ætlast til þess að hver sem er geti hent sér inn í umræðuna með illa ígrundaðar skoðanir án þess að þurfa að gera grein fyrir afstöðu sinni.
Tilraunir til hlutlausrar umfjöllunar um málið með fleiri sjónarhornum þurfa að vera frá sérfræðingum. Það myndi aldrei hvarfla að fjölmiðlafólki að tryggja ólík sjónarmið með því að blanda saman sérfræðingum og leikmönnum á sviði burðarþols. Af hverju ætti það þá að vera hægt þegar kemur að kynjamisrétti og ofbeldismenningu?
Samfélag sem ekki hefur fundið leiðir til að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi verður að horfast í augu við að það fremst ekki af sjálfu sér. Við getum ekki þaggað þetta lengur. Við getum ekki lengur látið þolendur bera ábyrgðina. Hún á heima hjá gerendum og þeir verða að finna út hvernig þeir geta axlað hana.
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl