Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:


HVATNING VIKUNNAR: KVENNAVERKFALL 2023


Þann 24. október nk. eru konur og kvár hvött til að leggja niður störf til að mótmæla kerfisbundnu launamisrétti og kynbundnu ofbeldi. Þetta er í sjöunda skiptið á 48 árum sem sem þessi leið er farin, en allt kemur fyrir ekki.

Í ár er hvatt til heils dags verkfalls, jafnt í launuðum sem ólaunuðum störfum, til að sýna fram á mikilvægi framlags kvenna og kvára til samfélagsins. Undanfarna áratugi hafa langflestir atvinnurekendur sýnt aðgerðunum skilning og búast má við að flestir vinnustaðir geri ráðstafanir til að liðka fyrir þátttöku.
 

UNDANTEKNINGARNAR


Á þessu verða vissulega einhverjar undantekningar. Það eru til konur og kvár sem geta ekki tekið þátt af því þau eru hreinlega í ómissandi störfum sen enginn annar getur sinnt. Flest þeirra vinna við umönnun og þjónustu við fatlað, aldrað eða annað jaðarsett fólk. Ef þú ert í slíkri stöðu ertu hvött/hvatt til að setja mynd af þér á samfélagsmiðla með myllumerkjunum #ómissandi og #kvennaverkfall.

Svo eru til atvinnurekendur sem banna starfsfólki að taka þátt. Þeir trúa á tálsýnina um jafréttisparadísina, halda því jafnvel fram að launajafnrétti hafi verið náð og að annað hvort þeir eða samfélagið hafi lagt nóg af mörkum. Sumir þessara atvinnurekenda beita fyrir sig lagatæknilegum rökum um verkfallsrétt og aðgerðir. Hollt væri að minna þessa atvinnurekendur á lög um jöfn laun fyrir jafn verðmæt störf, lög um bann við áreitni og ofbeldi og stjórnarskrárbundið bann við mismunun. Á meðan atvinnurekendur líða brot á þessum ákvæðum á vinnustöðum sínum frá degi til dags, er í besta falli hræsni að skýla sér á bak við lög um verkfallsrétt.
 

KALLARÐU ÞETTA JAFNRÉTTI?


Aðstandendur kvennaverkfallsins hafa dregið fram sláandi staðreyndir um sjálfsmyndarskekkju okkar Íslendinga. Jafnréttisparadísin er nefnilega alls engin paradís þegar allt kemur til alls:


  • Sjöttu hverri stúlku hefur verið nauðgað af jafnaldra.
  • Fatlaðar konur eru líklegri en aðrar konur til að vera beittar ofbeldi og það getur verið erfiðara fyrir þær að segja frá út af aðgengi eða viðmóti.
  • Kvár upplifa sig ekki örugg á vinnumarkaði og treysta sér ekki til að vera þau sjálf í vinnunni af ótta við útskúfun.
  • Vinnudagar kvenna af erlendum uppruna eru lengri og óreglulegri en gengur og gerist meðal kvenna á Íslandi, laun þeirra eru lægri og starfsöryggi minna.
  • Í fyrra dvöldu 172 konur í Kvennaathvarfinu og 129 börn.
  • Skortur á leikskólaplássum bitnar frekar á tekjum og tækifærum kvenna en karla.
  • Atvinnutekjur kvenna eru enn um 21% lægri en karla.
  • Konur sem starfa við ræstingar, umönnun barna, sjúkra, faltaðs og aldraðs fólks eru á einna lægstu laununum í íslensku samfélagi.


Við þetta má svo bæta að það er mjög auðvelt skýra burt kynbundinn launamun, sérstaklega þegar hann er meðhöndlaður sem tölfræðilegt fyrirbæri en ekki sá félagslegi veruleiki sem hann er. Borgarstjóri hefur til dæmis haldið því fram að kynbundnum launamun hafi verið útrýmt hjá Reykjavíkurborg, sem er kannski rétt þegar sýnin takmarkast við leiðréttan launamun. Heildarlaun eru þó mjög ólík eftir sviðum, þar sem bæði grunn- og heildarlaun eru langlægst hjá velferðar-, skóla- og frístundasviði. Það er því ansi langt í land, þar sem annars staðar, að framlag kvenna til samfélagsins sé metið að verðleikum.
 

STÖNDUM SAMAN


Ég hvet ykkur til að gera allt sem í ykkar valdi stendur. Ég hvet konur og kvár til að leggja niður störf og mæta á auglýsta viðburði þennan dag og ég hvet þau sem það geta til að standa með hinum sem ekki geta það af einhverjum ástæðum. Ég hvet stjórnendur til að skapa svigrúm og  karla til að taka við launuðum og ólaunuðum verkefnum kvenna þennan dag. Síðast en ekki síst hvet ég stjórnvöld, samtök atvinnurekenda og allt fólk í hvers kyns valda- eða áhrifastöðum til að breyta. Laga það sem þarf að laga og stuðla að því að jafnréttisparadísin verði að veruleika.

Bestu kveðjur,

Sóley


Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 15. nóvember 2024
 HUGTAK VIKUNNAR: FORRÉTTINDAFIRRING
Eftir soleytomasdottir 8. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: HITT FÓLKIÐ
Eftir soleytomasdottir 1. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MANNRÉTTINDABROT SEM STEFNUMÁL?
ELDRI FÆRSLUR
Share by: