Blog Layout

FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA

Skráðu þig í áskrift hér

-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:

KRAFA VIKUNNAR: KVENNAKJARASAMNINGAR

Kvennaverkfallið 1975 var einn af stóru viðburðum Íslandssögunnar. Það var skipulagt af konum sem lögðu á sig ómælda vinnu, sýndu ótrúlegt hugrekki og leystu magnaðan kraft úr læðingi þennan dag. Við aðstæður þar sem konur voru í miklu verri stöðu en í dag, mættu enn meiri mótstöðu en femínistar dagsins í dag og höfðu færri tæki og verri aðstæður til að skipuleggja, undirbúa og framkvæma. Konurnar sem skipulögðu og tóku þátt í viðburðinum lögðu nauðsynlegan grunn fyrir okkur hinar til að halda áfram.



HVAÐ HEFUR BREYST?

Síðan þá hafa fjölmargar aðgerðir verið skipulagðar og framkvæmdar. Konur hafa brotið sér leið inn í stjórnmál, allar atvinnugreinar, áhugamál og íþróttir. Konur eru að skila skömminni vegna kynbundins ofbeldis, draga úr ábyrgð á heimilisstörfum og vekja athygli á karllægni, mismunun og útilokun alla daga. Í næstum hálfa öld hafa konur lagt ómældan tíma og orku í að krefjast grundvallarmannréttinda. Stór skref hafa vissulega verið stigin, en samt er allt of langt í land.

Ástæðurnar sem framkvæmdanefnd um kvennafrí 1975 settu fram fyrir aðgerðunum voru m.a. þessar:


  • Vegna þess að meðallaun kvenna við verslunar- og þjónustustörf eru aðeins 73% af meðallaunum karla við sömu störf.
  • Vegna þess að mismunur á meðaltekjum verkakvenna og verkakarla er kr. 30.000,- á mánuði.


Í dag er staðan sorglega lík því sem þá var. Samkvæmt launarannsókn Hagstofunnar 2021 er þetta staðan:


  • Meðalatvinnutekjur kvenna eru 74% af meðalatvinnutekjum karla. Eftir að tekið hefur verið tillit til vinnutíma fá þær 86% af launum karla og þegar leiðrétt hefur verið fyrir allskonar umdeilanlegar breytur fá þær 96% af launum karla.
  • Ef við gerum ráð fyrir að meðalheildarlaun verkafólks séu 500 þúsund krónur á mánuði, er mismunur á meðalatvinnutekjum verkakvenna og verkakarla 130 þúsund krónur á mánuði, 70 þúsund þegar leiðrétt hefur verið fyrir vinnutíma og 20 þúsund þegar öllum umdeilanlegu breytunum hefur verið bætt við.


Jafnvel þótt við samþykkjum allar umdeilanlegu breyturnar sem skýringu, er hver einasta verkakona snuðuð um 20 þúsund krónur á mánuði eða 240 þúsund krónur á ári. Á þeim 47 árum sem liðin eru frá kvennaverkfallinu 1975 hefur hver starfandi verkakona orðið af rúmum 11 milljónum króna.

Það eru um 90 þúsund konur á vinnumarkaði. Ef hver og ein þeirra hefur orðið af 11 milljónum króna, hefur samfélagið snuðað þær samanlagt um 260 milljarða króna. Það er lægsta mögulega niðurstaða ef við viljum reikna út áhrif launamunar kynjanna á fjárhagsstöðu kvenna á Íslandi.



MIKLU MIKLU MEIRA

Skýribreytur sem notaðar eru til að reikna út leiðréttan launamun eru umdeilanlegar, enda er ekki alltaf sanngjarnt að réttlæta launamun með menntun, starfsaldri eða tegund starfs, sér í lagi á meðan verðmætamat samfélagsins er jafn kynjað og raun ber vitni.

Það er óbærilegt að hugsa til þess að vinnan, hugrekkið og krafturinn í formæðrum okkar árið 1975 hafi ekki skilað okkur meiri árangri. Að stjórnvöld og atvinnurekendur hafi í hálfa öld dundað sér við að skrifa og stagbæta lög, stofna og afleggja nefndir og skrifa sambærilegar skýrslur æ ofaní æ í stað þess að leiðrétta vanmat á framlagi kvenna til samfélagsins.

Kröfurnar sem BSRB reisir um kvennakjarasamninga þessu sinni eru sanngjarnar og löngu tímabærar. Vonandi verða þeir að veruleika.


Bestu kveðjur,


Sóley


Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki


HUGLEIÐINGAR LIÐINNA VIKNA

Eftir soleytomasdottir 8. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: HITT FÓLKIÐ
Eftir soleytomasdottir 1. nóvember 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: MANNRÉTTINDABROT SEM STEFNUMÁL?
Eftir soleytomasdottir 25. október 2024
HUGLEIÐING VIKUNNAR: KVENNAÁRIÐ 2025
ELDRI FÆRSLUR
Share by: