Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
SPURNING VIKUNNAR: HVAÐAN ERTU?
Undanfarnar vikur hef ég fylgst með tveimur frábærum heimildaþáttaröðum á RÚV, Mannflórunni sem fjallar um fjölmenningu í íslensku samfélagi í umsjá Chanel Bjarkar Sturludóttur og Tvíburum, sem fjallar um tvíbura eins og nafnið gefur til kynna í umsjá Ragnhildar Steinunnar Jónsdóttur.
Ég mæli mjög með þessum þáttum, enda hafsjór af fróðleik um mikilvæg málefni. Gæði þáttanna byggja ekki síst á reynslu og bakgrunni umsjónarkvennanna. Chanel Björk á flóknar rætur að rekja til Vestfjarða, Jamaica og Bretlands og Ragnhildur Steinunn á sjálf eineggja tvíbura. Báðar segja þær frá eigin tengslum við viðfangsefnið í upphafi og leyfa þessum tengslum að koma ítrekað fram í þáttunum. Það er hressandi uppbrot á hefðbundinni dagskrárgerð.
HLUTLEYSI EÐA SANNGIRNI?
Mýtan um að fjölmiðlafólk sé (eða eigi að vera) hlutlaust er ansi lífsseig. Að það geti tekið reynsluheim sinn og skoðanir út fyrir sviga í allri umfjöllun og miðlað einhvers konar algildum sannleik. Þessi mýta bæði byggir á og viðheldur kröfunni um hlutlausa fjölmiðlun, að það þurfi alltaf að tryggja að „andstæð sjónarmið“ heyrist, sama hvað.
Í raunveruleikanum er lofttæmt hlutleysi alls ekki til. Allar athafnir fólks litast af reynslu þess, áhugamálum, þekkingu og viðhorfum – og það á auðvitað líka við um fjölmiðla- og dagskrárgerðarfólk. Val á umfjöllunarefnum, viðmælendum, framsetningu efnis og hvort eða hvaða andstæðu sjónarmið þurfi að koma fram er alltaf huglægt og litað af fréttamati, áhugasviði og skoðunum þeirra sem velja.
Krafan um hlutlausa fjölmiðlun er óraunhæf og getur hreinlega verið skaðleg enda er hið meinta hlutleysi oftar en ekki byggt á einsleitri, karllægri, hvítri og íslenskri nálgun út frá skilgreiningarvaldi hins viðtekna. Krafan um sanngjarna fjölmiðlun ætti betur við, enda dýpkar það umfjöllunina að vita hvernig fjölmiðlafólk tengist umfjöllunarefninu. Dæmin um Chanel Björk og Ragnhildi Steinunni eru augljós en þetta mætti sannarlega gerast oftar og kannski sérstaklega þegar fólk hefur hvorki reynslu né þekkingu á umfjöllunarefnunum.
STAÐSETNING OG SJÓNARHORN
Eitt mikilvægasta framlag kynjafræðinnar til samfélagsins er áherslan á að við séum meðvituð um ofangreint. Um áhrifin sem staða okkar (forréttindi og hindranir) hefur á það sem við tökum okkur fyrir hendur. Að afbyggja meinta hlutleysið og sýna fram á huglæga matið í því sem áður var talið hlutlægt.
Innsýn og þekking Chanel Bjarkar og Ragnhildar Steinunnar gerir þeim kleift að velja fjölbreyttari viðmælendur, kafa dýpra og sýna sjónarhorn sem leikfólk hefði ekki hugmyndaflug í að fjalla um. Þær þykjast alls ekki vita allt best, heldur leita til sérfræðinga og/eða fólks með aðra reynslu en þær, en miðla því af fádæma næmni
HVAÐAN ERTU?
Þetta algegna öráreiti – spurning sem hvítir Íslendingar sem tala íslensku að móðurmáli nota til að tengjast, en spyrja svart og brúnt fólk eða fólk sem talar með hreim til að afla aðgreinandi upplýsinga – er eitthvað sem við ættum að nota reglulega í sjálfsskoðun.
Við þurfum að vera meðvituð um á hverju skoðanir okkar, val, ákvarðanir eða gildismat byggja. Sjálf reyni ég að vera meðvituð um þau áhrif sem öll forréttindin mín hafa, á sama tíma og ég nota reynslu mína úr jaðarsettum aktívisma til að miðla fróðleik um jafnrétti, fjölbreytileika og inngildingu. Það gengur misvel, en ég er vonandi að skána. Prófið endilega – ég mæli með.
Bestu kveðjur þangað til þá,
Sóley
JUST Consulting, Stijn Buysstraat 8, 6512CP Nijmegen, Hollandi, s. +31 (0)645476373 - just@justconsulting.nl