FÖSTUDAGSHUGLEIÐINGAR UM FJÖLBREYTILEIKA
Skráðu þig í áskrift hér
-svo máttu endilega deila síðunni með öðru fólki:
FULLYRÐING VIKUNNAR: ÖLL RÁÐNINGARFERLI SNÚAST UM ÚTILOKUN
Ég hef verið með hæfniskröfur á heilanum síðan ég horfði á Team Pølsa. Ég skrifaði um þættina fyrir örfáum vikum, en þarf eiginlega að bæta aðeins í. Reglur um þátttöku í heimsmeistaramótinu á skíðum eru listaðar í 50 síðna handbók Alþjóða skíðasambandsins. Team Pølsa sýndi fram á að þær snúast hvorki um hver geta tekið þátt né hvað það er sem gerir heimsmeistaramótið aðlaðandi fyrir áhorfendur, sjónvarp eða auglýsingar. Reglurnar tryggja einsleitan hóp þátttakenda sem keppa út frá fyrirfram gefnum reglum um hæfni.
Auðvitað er ekki til nein ein rétt skilgreining á hæfasta einstaklingnum í hvaða starf, nám eða hlutverk sem er. Kröfurnar sem við setjum byggja alltaf á því hvaða fólk við viljum fá, frekar en hvaða fólk við getum fengið.
ÖLL RÁÐNINGARFERLI?
Það er kúnst að ráða rétta fólkið í réttu hlutverkin og þess vegna eru ráðningarferli í stöðugri þróun. Vönduð starfslýsing, aðlaðandi auglýsing, sanngjörn yfirferð umsókna, ítarleg ráðningarviðtöl, próf, æfingar og verkefni – allt skiptir þetta máli til að velja réttu manneskjuna.
Ráðningarferli snúast um að finna manneskju sem fellur inn í fyrirfram skilgreint hlutverk með fyrirfram skilgreinda eiginleika. Af því það er búið að ákveða hvað vinnustaðurinn þarf og vill. Kannski ekki í 50 síðna handbók að hætti Alþjóða skíðasambandsins, en ansi afmarkað engu að síður.
Í rauninni snúast ráðningarferlin því um að útiloka þau sem vinnustaðurinn vill ekki fá. Að fá ekki umsóknir frá fólki sem ekki er talið henta, að taka ekki viðtöl við umsækjendur með ófullnægjandi umsóknir og hafna svo öllum í lokaúrtakinu nema þeim fyrirframgefna fjölda sem ráðningarferlið gekk út á.
ÞARF ÞETTA AÐ VERA SVONA?
Ástæður fyrir núverandi fyrirkomulagi ráðningarferla eru margar og ágætar. Það sakar þó ekki að vera opin fyrir öðrum og öðruvísi hugmyndum. Það eru nefnilega talsverðar líkur á að við séum orðin svo samdauna starfseminni að okkur detti ekki í hug að leita nýrra leiða. Að við áttum okkur ekki á þörfinni fyrir nýjar vörur eða þjónustu og leitum því ekki að „rétta fólkinu“.
Ein leið gæti verið að auglýsa galopið, án starfsheitis, lýsingar, krafna, skilyrða eða skuldbindinga. Að segjast vera opin fyrir aðstoð við að ná betri árangri og óska eftir liðsinni frá öllum þeim sem hafa áhuga. Sjá hvort og þá hvernig umsóknir eða tilboð berast og skoða gaumgæfilega hvort þar leynist ekki eitthvað sem raunverulega gæti gagnast.
Vísir að þessu eru hugmyndadagar RÚV, þar sem fólk er hvatt til að senda inn hugmyndir að dagskrárefni. Yfir 2500 hugmyndir hafa borist í gegnum hugmyndadagana og af þeim hafa um 150 verið þróuð frekar. Einhverjar þessara hugmynda hefðu kannski fæðst meðal starfsfólks RÚV á einhverjum tímapunkti, en alveg örugglega ekki allar.
ÉG SKAL BYRJA
Við höfum öll gott af smá ögrun. Sjálf hafði ég ákveðið að Just Consulting yrði alltaf einyrkjafyrirtæki þar sem ég gæti unnið við það sem ég elska að vinna við og séð mér og mínum farborða í leiðinni. Hver veit nema einhver geti sannfært mig um annað. Ég er alla vega til í að láta á það reyna.
Ég auglýsi því hér með eftir hugmyndum að starfsfólki eða samstarfsaðilum sem telja sig geta þróað eða bætt þá vinnu sem þegar fer fram hjá Just Consulting. Ég er til í að skoða allt með opnum hug og leita leiða til að láta góðar hugmyndir verða að veruleika.
Bestu kveðjur,
Sóley
Þér er velkomið að deila færslunni með öðru fólki